Fjármálaeftirlitið, Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR og Guðrún Johnsen, nýr fulltrúi VR í stjórn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna, fá rækilega fyrir ferðina á baksíðu Viðskiptamoggans í dag, þar sem ritstjórinn Stefán Einar Stefánsson (sem er fv. formaður VR) heldur á penna.
Gamalreyndir Moggamenn muna vart eftir jafn harðorðum skrifum fyrr á þessum vettvangi.
Gefum Stefáni Einari orðið:
„Fyrir skemmstu lækkaði stærsti lífeyrissjóður landsins fasta verðtryggða húsnæðisvexti um 0,2% og standa þeir nú í 3,4%. Á sama tíma hækkaði sjóðurinn breytilegu vextina úr 2,06% í 2,26%. Hvort tveggja skiljanlegar ákvarðanir.
En þá ærðist sá sem ekkert annað kann og kallaði klappstýrur í kringum sig til þess að víkja hálfri stjórn sjóðsins frá. FME varð ekki um sel og greip inn í en reyndar með fálmkenndum og lítt afgerandi hætti. Og nú hefur náðst samkomulag um að stjórnin víki og ný taki við. Búið er leggja blessun yfir skuggastjórnun þar sem hugsunarlausir ærslabelgir geta komið vilja sínum fram gagnvart fólki sem reynir það eitt að vinna sitt af heilindum.
Sami varaformaður var formaður lánanefndar bankans sem hafði yfirsýn yfir United Silicon, WOW air og Primera.
Eftir standa sjóðfélagar Lífeyrissjóðs verzlunarmanna með laskaða stjórn og undir járnhæl fólks sem ekki er treystandi fyrir þeim miklu hagsmunum sem í sjóðunum eru varðveittir. Verra er að horfa til þess hverjir tóku sæti hinna brottreknu.
Einn þeirra var aðalleikandi í gjörningi sem leiddi til gjaldþrots eins stöndugasta fjármálafyrirtækis landsins. Annar hefur nær alla tíð verið á mörkum þess að vera fjár síns ráðandi. Aðalstjarnan meðal hinna fjögurra fræknu er hins vegar fyrrverandi varaformaður stjórnar Arion banka. Því embætti gegndi hún þegar starfslokasamningur upp á 150 milljónir var samþykktur við fráfarandi bankastjóra. Sami varaformaður var formaður lánanefndar bankans sem hafði yfirsýn yfir United Silicon, WOW air og Primera. Telja menn að henni sé í alvöru treystandi fyrir 700 milljarða lífeyrissparnaði tugþúsunda Íslendinga?“