Húsnæðisskortur út um allt land, ekki bara á höfuðborgarsvæðinu, hefur vart farið framhjá nokkrum manni undanfarin misseri. Gríðarleg fjölgun ferðamanna, erlends starfsfólks og svo hælisleitenda bætist ofan á skort sem var nægur fyrir og þéttingarstefnan í höfuðborginni hefur ekki hjálpað upp á sakirnar.
En í dag birtist óvenju jákvæð frétt um fasteignamarkaðinn með tíðindum sem komu talsvert á óvart miðað við umræðuna almennt, svo mjög á óvart raunar að reyndur fasteignasali sá ástæðu til þess að hafna henni alfarið. Því er varla skrítið þótt fólk velti fyrir sér hverju það á að trúa?
Byrjum á jákvæðu fréttunum. Á vef fjármála- og efnahagsráðuneytisins birtist frétt, þar sem lýst var heilmiklum krafti í nýbyggingum. „Nýbyggðum íbúðum hefur fjölgað umtalsvert á þessu ári og enn er kraftur í byggingu nýs íbúðarhúsnæðis. Þetta kemur fram í greiningu ráðuneytisins á tölum Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar,“ sagði þar.
„Samkvæmt tölum úr Fasteignaskrá HMS hefur fjöldi íbúða í byggingu haldist nokkuð stöðugur frá áramótum og er við sögulegt hámark eða vel yfir 7.000 talsins. Íbúðum sem lokið er byggingu við hefur fjölgað töluvert það sem af er ári miðað við sama tíma í fyrra samkvæmt tölum stofnunarinnar. Á það jafnt við um höfuðborgarsvæðið og landsbyggðina.
Fjöldi íbúða á fyrsta byggingarstigi jókst um 36% milli ára samkvæmt nýjustu talningu HMS frá mars. Þá sýna tölur Hagstofunnar að velta í byggingariðnaði, sem ætti að gefa hvað bestu myndina af umsvifum í greininni, hefur haldið áfram að aukast hratt á þessu ári á föstu verðlagi. Áfram er fylgst grannt með áhrifum vaxtahækkana á byggingu húsnæðis en enn sem komið er eru engin skýr merki komin fram um að íbúðum í byggingu hafi fækkað,“ sagði ennfremur í frétt fjármálaráðuneytisins.
Verktakar hættir að byggja og fólk hætt að kaupa
Er þá verið að blása upp vanda sem ekki er til staðar? Er Bjarni Benediktsson að segja okkur að það sé allt að gerast í uppbyggingu íbúða og enginn skortur?
Fasteignasalinn Páll Heiðar Pálsson kom í samtali við Viðskiptablaðið og hafði allt aðra sögu að segja. Hann furðaði sig hreinlega á þessari yfirlýsingu fjármálaráðuneytisins. Á hreinni íslensku benti Páll á að miðað við núverandi verðbólgu og vaxtastig sé staðan þannig að verktakar séu ekki að byggja eða taka lán og að kaupendur hafi dregið sig í hlé.
„Það má vel vera að stór hluti af þessum byggingum í framkvæmd sé á fyrri byggingarstigum en þær framkvæmdir hafa stöðvast vegna þess að vextir eru of háir. Verktakar eru ekki að taka lán og fólk er ekki að kaupa fasteignir vegna þess að vextirnir eru svo háir,“ sagði Páll.
„Árin 2018 til 2019 var enginn að byggja og það sama virðist vera að gerast núna. Það er samhljómur í öllum um að framkvæmdir hafi stöðvast. Það má alveg finna einhverjar lóðir þar sem búið er að byggja grunn en verktakar eru búnir að stöðva framkvæmdir vegna þess að það eru engir kaupendur,“ bætti hann við.
Það var og. En samkvæmt greiningu fjármálaráðuneytisins eru engin skýr merki komin fram um að íbúðum í byggingu hafi fækkað.
Já, hverju á fólk að trúa?