„Á undanförnum árum hefur allri helstu atvinnustarfsemi, heilbrigðisþjónustu og stærstu skólum landsins verið komið fyrir á tiltölulega litlum bletti í póstnúmeri 101. Þessi uppbygging hefur átt sér stað án þess að núverandi samgöngumannvirki beri umferðaraukninguna sem af þeirri stefnu hlýst. Í ljósi þess að margir telja að ekki sé hægt að byggja upp mannfreka þjónustu í öðrum póstnúmerum en 101, var því ekki hægt annað en ráðast í þessar framkvæmdir. Máltækið skjóta fyrst og spyrja svo á vel við í þessu dæmi.“
Þetta skrifar Magnús Magnússon ritstjóri í blað sitt, Skessuhorn, sem kemur út á Vesturlandi. Óhætt er að segja að ritstjórinn láta ráðamenn þar heyra það á kjarnyrtri íslensku.
„Byrjað var á að yfirhlaða mannsækna starfsemi á einn lítinn blett vestast á höfuðborgarsvæðinu. Allt í boði skipulagsyfirvalda en með dyggri aðstoð íslenska ríkisins sem telur alveg einboðið að best sé að byggja þjóðarsjúkrahúsið, háskólasamfélagið og aðra opinberu stjórnsýsluna á þröngu svæði, þangað sem ógreiðfærast er að komast.
Þegar því var lokið kemur lyktin í ljós þegar kúkurinn situr fastur í brókinni. Nú skal verja 120 milljörðum af almannafé til að reyna að bæta samgöngur inn á þennan eftirsótta blett.Þau sveitarfélög sem sýnt hafa forsjálni og skynsemi í skipulagsmálum þurfa ekki að standa í eftiráreddingum sem þessum. Þau gera ráð fyrir samgönguæðum sem beri þá umferð sem þarf. Spyrja fyrst, en skjóta svo.
Ég viðurkenni fúslega að í einfeldni minni hélt ég að ríkisstjórnin myndi aldrei skrifa undir svona samning án þess að hluti hans yrði samkomulag við hreppana á höfuðborgarsvæðinu um lagningu Sundabrautar. Að gert yrði ráð fyrir í samkomulagi þessara aðila að tryggt væri hvernig samgöngur við Vesturland um Kjalarnes yrðu sem greiðastar.
En, nei, því var ekki að heilsa. Þar brást samgönguráðherrann og aðrir forystumenn ríkisstjórnarinnar. Þar brugðust einnig borgarstjórinn og allir sem að þessu komu.
Líklega er komið í ljós að búið er að þrengja svo að möguleikum til vegtengingar frá Reykjavík og yfir sundin, að það verður ekkert af lagningu Sundabrautar.
Vilji til tvöföldunar Vesturlandsvegar er ekki til staðar, nú er Sundabraut ekki í sjónmáli
Allt tal um hana frá fyrstu árum þessarar aldar reynist hefur verið innihaldslaust orðagjálfur ráðamanna, sem í besta falli hafa skreytt sig með loforðum í aðdraganda kosninga – og svo ekki söguna meir.
Því er ekki að leyna að mér mér finnst Vesturland afskipt í uppbyggingu samgangna. Vilji til tvöföldunar Vesturlandsvegar er ekki til staðar, nú er Sundabraut ekki í sjónmáli og áfram skulum við treysta á hagstætt veður og vinda í þeim tilfellum sem við neyðumst til að komast á þennan eftirsótta blett í póstnúmeri 101.
Sjálfur er ég ekki að kvarta, á þangað sjaldan erindi, en þeir sem sækja reglulega vinnu eða nám á höfuðborgarsvæðinu með búsetu á Akranesi, Borgarnesi eða öðrum stöðum á Vesturlandi, eiga samúð mína alla.
Margir hafa fjárfest í húsnæði á þessum stöðum og látið freistast til að trúa að brátt sjái til sólar í betri og öruggari vegum.
En hvar eru þingmennirnir sem eiga að gæta hagsmuna okkar? Hvað segir sveitarstjórnarfólk?
Er kannski öllum sama um að við séum ítrekað „dissuð“ með þessum hætti?
Ég segir nei, við erum engir andsk.. annars flokks þegnar. Okkar skattpeningar eru hreint ekkert verri en annarra,“ segir í leiðaranum.