Er lítið að gera í ráðuneytinu?

Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra.

Vandræðamálið kringum talningu atkvæða í Norðvesturkjördæmi er efni í marga pistla í sjálfu sér, en Viljinn heyrir á þingmönnum að einn angi þess veki athygli og endurspegli kannski að einhverju leyti valdakerfið innan Vinstri grænna.

Nú er starfandi, eins og kunnugt er, svonefnd undirbúningsnefnd kjörbréfanefndar, á vegum þingsins sem hefur það hlutverk að reyna að ráða fram úr kærumálum vegna útgáfu kjörbréfa og finna út staðreyndir mála varðandi kosningaframkvæmdina í Borgarnesi og þau vandræði sem af talningu og endurtalningu þar stafa. Formaður þessarar undirbúningsnefndar er Birgir Ármannsson, sjálfstæðismaðurinn ódrepandi sem jafnan er talinn af kringum prófkjör og kosningar en stendur svo á endanum einhvern veginn alltaf uppi með pálmann í höndunum.

Undirbúningsnefnd þessi starfar í samræmi við 3. mgr. 1. gr. þingskapa og er ætlað að undirbúa þá rannsókn kjörbréfa sem fer fram á þingsetningarfundi. Nefndarmenn eru tilnefndir af þingflokkunum og var skipað í nefndina á grundvelli hlutfallsreglu 82. gr. þingskapa, sem fáir utan þingsins skilja, en það er aðferð sem kennd er við d’Hondt.

Í undirbúningsnefnd fyrir rannsókn kjörbréfa eiga sæti (raðað eftir hlutatölu flokka):

  • Birgir Ármannsson, Sjálfstæðisflokki,
  • Líneik Anna Sævarsdóttir, Framsóknarflokki,
  • Svandís Svavarsdóttir, Vinstrihreyfingunni – grænu framboði,
  • Diljá Mist Einarsdóttir, Sjálfstæðisflokki,
  • Jóhann Friðrik Friðriksson, Framsóknarflokki,
  • Þórunn Sveinbjarnardóttir, Samfylkingu,
  • Inga Sæland, Fólki flokksins,
  • Björn Leví Gunnarsson, Pírötum,
  • Vilhjálmur Árnason, Sjálfstæðisflokki.

Auk þess eiga Viðreisn og Miðflokkurinn áheyrnarfulltrúa í nefndinni.

En hvað er það sem mesta athygli vekur í nefndinni? Jú, að Vinstri græn hafi tilnefnt Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra sem fulltrúa sinn. Þingmenn hafa velt fyrir sér af þessu tilefni hvort lítið sé að gera í ráðuneytinu, eða hvort túlka megi þetta sem vísbendingu um að Svandís sé á förum í annað ráðuneyti? Allt að einu stingur vera ráðherrans þarna töluvert í stúf, enda gæti nefndin átt drjúgt og tímafrekt verkefni fyrir höndum, og má velta fyrir sér hvers vegna þingflokksformaðurinn Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Norðaustur) eða Steinunn Þóra Árnadóttir (Reykjavík norður) voru þarna ekki frekar, enda báðar kjördæmakjörnar og með góða þingreynslu.