Það er ekkert nýtt að atvinnulífið upplifi eftirlitsstofnanir á borð við Samkeppniseftirlitið eins og ríki í ríkinu. Þeir sem leyfa sér að gagnrýna ákvarðanir eftirlitsins geta átt á hættu að komast í ónáð eða sæta jafnvel margra ára rannsóknum og því ákveða flestir að bíta á jaxlinn og segja ekki neitt, enda þótt margt orki tvímælis hjá embættismönnum þessa apparats, svo ekki sé fastar að orði kveðið.
Ýmis dæmi mætti nefna. Þannig þurftu íbúar í Þingholtunum t.d. að sjá á eftir vinsælli Bónusverslun vegna þess að andlitslausir embættismenn SKE fundu það út að skekkja væri í samkeppni á matvörumarkaði ef Bónus ætti áfram verslun við Hallveigarstíg og í Skeifunni ætti samruni Haga við fyrirtæki í óskyldri starfsemi að standa. Heilbrigð skynsemi var þarna látin lönd og leið, enda voru það eingöngu neytendur sem liðu fyrir ákvörðun sem var einhvers konar friðþæging eftirlitsins. Bónus gat auðvitað opnað nýja verslun í Skeifuhverfinu litlu síðar og búðin í Þingholtunum hefur átt erfitt uppdráttar síðan og starfað undir ýmsum merkjum, fyrst og fremst til óhagræðis fyrir íbúa í nágrenninu.
Undarleg yfirlýsing eða tilmæli Samkeppniseftirlitsins frá því fyrir helgi þarf því kannski ekki að koma á óvart, en vekur samt furðu því dramb hins andlitslausa embættismanns sem í henni felst er yfirgengilegt. Þar er spjótum beint að stórum heildarsamtökum fyrirtækja og forsvarsmönnum þeirra beinlínis hótað, taki þeir þátt í fullkomlega eðlilegri opinberri umræðu.
Í yfirlýsingu SKE segir nánar tiltekið: „Á undanförnum dögum hafa fjölmiðlar fjallað um yfirvofandi vöruskort á ýmsum sviðum, hækkandi hrávöruverð, truflanir í aðfangakeðjum og aðrar efnahagslegar afleiðingar kórónuveirufaraldursins sem áhrif geta haft á verðlag og hagsmuni neytenda hér á landi. Forsvarsmenn hagsmunasamtaka fyrirtækja hafa tekið þátt í þessari umræðu. Þannig lét framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins hafa það eftir sér í fjölmiðlum að það væri „mjög líklegt að [vöru]skorturinn til skamms tíma muni valda verðhækkunum alla vega á einhverjum vöruflokkum.“
Einnig hefur framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu lýst yfir áhyggjum af því að „það verði áfram þrýstingur á verðlag vegna innfluttrar verðbólgu […]“ í grein í Viðskiptablaðinu undir fyrirsögninni „Frekari hækkanir í vændum“ ásamt því að lýsa því yfir í ViðskiptaMogganum að „greinilegt“ sé að „þær hækkanir sem orsakast af þessum miklu hrávöruhækkunum, […] eru ekki að fullu komnar fram [á Íslandi]“. Þá var haft eftir formanni Bændasamtaka Íslands að verðhækkanir á tilbúnum áburði muni á endanum leiða til hækkunar á afurðaverði og nefndi sem dæmi framleiðslu á grænmeti og mjólkurafurðum.“
Þetta er svo víðáttuvitlaust hjá Páli Gunnari Pálssyni og félögum í Samkeppniseftirlitinu, að menn vita varla hvar þeir eiga að byrja. Var eitthvað rangt í því sem forystumenn atvinnulífsins sögðu? Er það sem þeir sögðu, eitthvað frábrugðið því sem fjallað er um í fjölmiðlum um allan heim í ljósi rofs í framleiðslukeðjunni eftir heimsfaraldurinn?
Nei, auðvitað ekki. Það gefur auga leið, að skortur á vörum getur leitt til hækkunar vöruverðs og mun gera það. Það er líka augljóst að stórhækkun á vöruflutningum muni líka hafa áhrif á vöruverð hér innanlands. Það er ekki eitthvað sem Halldór Benjamín og félagar í Samtökum atvinnulífsins voru að finna upp á sínum kontór til að nota sem röksemd fyrir innistæðulausum hækkunum. Þeir voru að segja það sem rétt er og alls ekkert óeðlilegt fyrir þá að taka þátt í opinberri umræðu í krafti stöðu sinnar.
Samt tekur Samkeppniseftirlitið fram í tilkynningu sinni að samkeppnislög setji hagsmunasamtökum skorður í hagsmunagæslu sinni og verði samtök fyrirtækja því að fara „afar gætilega þegar kemur að umræðu og fræðslu sem getur haft áhrif á markaðshegðun félagsmanna“. Og svo segir: „Öll þátttaka í umræðu um verð og verðlagningu er sérstaklega varhugaverð og ætti ekki að eiga sér stað á vettvangi hagsmunasamtaka.“
Ha? Hvert er Samkeppniseftirlitið eiginlega að fara? Mega fjölmiðlar ekki ræða við samtök fyrirtækja eða verslunarmanna um fordæmalausan hráefnisskort í heiminum og erfiðleika verslana um allan heim við að fá vörur afhentar? Sagt er í fjölmiðlum um allan heim frá vöruskorti í IKEA, má Halldór Benjamín ekki tjá sig um það?
Svo er að sjá, að Páll Gunnar og undirmenn hans í Samkeppniseftirlitinu séu orðnir svo fastir í huggulegheitum í sínum fílabeinsturni að þeir átti sig ekki lengur á drambi sínu og yfirlæti. Að tjáningarrétturinn sé varinn í íslenskri stjórnarskrá og að fjölmiðlar megi ræða við hvern sem er um hvað sem er án þess að biðja Samkeppniseftirlitið fyrst um leyfi.
Hver á að gæta varðanna?, er stundum sagt. Hvar er eiginlega ráðherra þessa málaflokks og finnst honum þetta allt í lagi?