Er rétt aðferð að gera engar kröfur?

Niðurstöður í PISA 2022 voru birtar í gær og eins og venjulega eru skiptar skoðanir um niðurstöðuna, en eins og jafnan áður bíður sjálfstraust þjóðarinnar hnekki við það að sjá, svart á hvítu, að börnin okkar og skólakerfið kemur illa út í alþjóðlegum samanburði.

Könnunin mælir hæfni 15 ára nemenda í lesskilningi, læsi á náttúruvísindi og læsi á stærðfræði. Niðurstöðurnar sýna verri árangur nemenda í þátttökulöndum miðað við fyrri kannanir, m.a. á öllum Norðurlöndum og er lækkunin meiri á Íslandi.

Almennt lækka þátttökulönd í stærðfræðilæsi, lesskilningi og læsi á náttúruvísindi frá 2018 til 2022. Ísland mælist undir meðaltali Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) í öllum þremur flokkum. Lægra hlutfall býr yfir grunnhæfni og afburðahæfni borið saman við meðaltal Norðurlandanna og OECD.

Kannski er best að skoða þessar niðurstöður utanfrá. Dr. Jón Steinsson, hagfræðiprófessor, er búsettur í Bandaríkjunum. Þar eru mun meiri kröfur gerðar til barna á grunnskólaaldri er hér.

Hans greining á niðurstöðum Pisa-könnunarinnar er svohljóðandi:

„Niðurstöður PISA könnunarinnar eru sláandi. Getur verið að sú stefna að hafa engar einkunnir, engin próf, enga heimavinnu, ekkert álag, og gera engar kröfur, leiði einfaldlega til þess að enginn læri neitt?“