Er Þórdís Kolbrún tilbúin að fylgja yfirlýsingum sínum eftir?

Yfirlýsing Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur, fjármálaráðherra og varaformanns Sjálfstæðisflokksins, á Facebook sl. sunnudagskvöld frá New York, var stórmerkileg og hápólitísk. Með henni var mikið lagt undir sem sást á fjórum ólíkum fyrirspurnum til forsætisráðherrans á þingi daginn eftir. Sumir kalla þetta risastórt frumhlaup af hálfu fjármálaráðherra, þar sem erfitt eða ómögulegt geti reynst að vinda lögformlega ofan af kaupum Landsbankans á Tryggingamiðstöðinni, en aðrir segja þetta tímamótayfirlýsingu stjórnmálamanns sem hafi tekið forystu í Sjálfstæðisflokknum, sagt ríkisvæðingu undanfarinna ára stríð á hendur og líf ríkisstjórnarinnar geti verið undir.

Hvers vegna gæti þetta bundið enda á stjórnarsamstarfið? Jú, vegna þess að hvorki Vinstri græn né Framsóknarflokkurinn hafa í hyggju að einkavæða Landsbankann á þessu kjörtímabili. Það hafa bæði forsætisráðherra og viðskiptaráðherra aftekið með öllu.

Í umræddri færslu sinni sagði fjármálaráðherra:

„Þessi viðskipti verða ekki að veruleika með mínu samþykki, nema söluferli Landsbankans hefjist samhliða. Ég hef óskað skýringa á málinu frá Bankasýslu ríkisins sem heldur um eignarhluti ríkisins í bankanum og setur almenn viðmið um áherslur í rekstri auk þess að fylgja eftir eigendastefnu ríkisins.“

Nú liggur fyrir að aðalfundi Landsbankans hefur verið frestað, að kröfu Bankasýslunnar sem heldur því fram að hún hafi ekkert vitað af viðskiptum sem hafa verið í undirbúningi mánuðum saman. Í frétt Viðskiptablaðsins í kvöld, er haft eftir heimildamönnum beggja vegna borðsins og lögmönnum, að ekki virðist ekki vera nokkur leið fyrir ríkið til að vinda ofan af kaupunum.

Spurningin er því: Getur fjármálaráðherrann staðið við stóru orðin og stöðvað þessi viðskipti, án þess það valdi Landsbankanum stórtjóni? Getur stjórn bankans lifað af þessar pólitísku hremmingar? Og ef ekki er unnt að vinda ofan af þessu ferli og enginn pólitískur vilji er til að einkavæða Landsbankann, situr þá varaformaður Sjálfstæðisflokksins eftir í pólitískri snöru sem hún hnýtti sjálf?

Heimildamenn Viljans innan Sjálfstæðisflokksins, segja að Þórdís Kolbrún hafi lagt allt undir í þessum slag. Með framgöngu sinni hafi hún vakið aðdáun margra innan flokksins, sem hafa lengi þráð að forysta flokksins láti finna fyrir sér. Á hinn bóginn séu samstarfsflokkarnir í ríkisstjórn lítt hrifnir af slíku upphlaupi og skeytasendingum og bendi á að Bankasýslan heyri undir ráðherrann og klúður í þessum efnum sé því í reynd á hennar ábyrgð.

Fróðlegt verði að sjá hverjir fylgi henni í reynd að málum og hversu langt forysta Sjálfstæðisflokksins er tilbúin að ganga. Hvar er t.d. Bjarni Benediktsson formaður flokksins? Hvað hefur hann um þetta mál að segja?

Stjórnarandstaðan finnur á sér að eitthvað mikið liggur í loftinu og næstu dagar í íslenskum stjórnmálum geta orðið sögulegir.