Fyrir þá sem eldri eru en tvævetur í umræðum um íslensk stjórnmál, var harla fróðlegt og í reynd stórskemmtilegt, að fylgjast með Stefáni Pálssyni, sagnfræðingi og varaborgarfulltrúa Vinstri grænna, tala máli ríkisstjórnarinnar í Silfrinu í gærkvöldi.
Stefán, sem er algjörlega á heimavelli sem einn skemmtilegasti sögumaður landsins, sérstaklega á sviði sagnfræði og fótboltafræða, var í hlutverki stjórnmálamannsins sem hann er, í Silfrinu og það var aðeins vandasamara verkefni, enda er hann ekki bara varaborgarfulltrúi flokksins, heldur líka einn helsti hugmyndafræðingur hans og eiginmaður Steinunnar Þóru Árnadóttur, þingkonu flokksins. Hann er einn af þeim fáu sem eftir eru í VG, sem einhverju máli skipta.
En þegar kom að útlendingamálum hafði Stefán greinilega ekkert gaman að því að ræða hertar aðgerðir ríkisstjórnarinnar; hann vildi eins og fleiri úr VG fremur benda á að félagsmálaráðherra flokksins (varaformaðurinn Guðmundur Ingi Guðbrandsson) talaði með allt öðrum hætti en dómsmálaráðherrann (Guðrún Hafsteinsdóttir, Sjálfstæðisflokki).
Þetta er sami Stefán Pálsson og skrifaði harðorðar greinar í Múrinn og víðar á árum áður (með þá herskáum bræðrum forsætisráðherra) um þau lítilmenni sem tækju að sér samstarf með Sjálfstæðisflokknum og reyndu að verja stefnumál ríkisstjórna með slíkan flokk innanborðs.
Nú hefur gráu hárunum fjölgað hjá Stefáni Pálssyni, eins og mörgum fleirum á hans aldri, og hans hlutverk í lífinu orðið að koma í sjónvarpið og verja stjórnarsamstarf með Sjálfstæðisflokknum. Það er eiginlega svo óborganlega fyndið, eftir á að hyggja, að það hálfa væri nóg.