Eru Eyjamenn í afneitun?

Meðan Kórónuveiran leikur lausum hala í samfélaginu er ekki góð hugmynd að efna til mannfagnaða. Sóttvarnalæknir hefur enda gert tillögu til heilbrigðisráðherra um bann við fjöldasamkomum út sumarið umfram tvö þúsund manns.

Þetta verður auðvitað til þess að blása þarf af vinsælar skemmtanir. Hætt er við að sautjándi júní verði ekki svipur hjá sjón þetta árið, Menningarnótt ekki heldur eða Hinsegingangan. Dalvíkingar hafa þegar slegið af Fiskidaginn mikla og þannig mætti áfram telja.

Athygli vekur hins vegar að Íþróttabandalag Vestmannaeyja (ÍBV) og Þjóðhátíðarnefnd ætla ekki að hætta undirbúningi við Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum sem haldin er árlega um verslunarmannahelgina.

Miðasala á hátíðina er enn í fullum gangi og í glaðbeittri tilkynningu frá Herði Orra Grettissyni, framkvæmdastjóra ÍBV, kemur fram að Þjóðhátíðarnefnd hafi, ásamt fjölmörgum sjálfboðaliðum, unnið hörðum höndum að því að halda Þjóðhátíð í Herjólfsdal þrátt fyrir farsóttina sem fer nú um heimsbyggðina.

Allajafna sækja um 15-20 þúsund manns Herjólfsdalinn á Þjóðhátíð og þess vegna virkar tilkynning Harðar og félaga eins og opinber afneitun á fremur háu stigi. Það er glannaskapur að ætla bara að halda sínu striki og allir vita að ekki verður unnt að virða fjarlægðarmörk eða fjöldaviðmið á ölvunarsamkomu eins og þessari.

„Í dag er enn óljóst hversu lengi samkomubann og fjöldatakmarkanir munu gilda en í ljósi þeirra upplýsinga sem ríkisstjórnin hefur nú kynnt mun þessi vinna við undirbúning hátíðarinnar 2020 halda áfram, auk vinnu við ráðstafanir komi til þess að halda verði hátíðina í breyttri mynd. Eins og staðan er í dag vonumst við þó til að geta haldið Þjóðhátíð fyrstu helgina í ágúst,“ segir í tilkynningu ÍBV og Þjóðhátíðarnefndar.

Eyjamenn ættu þegar að henda inn handklæðinu, eins og sagt er í íþróttum og fara þannig að dæmi Dalvíkinga. Auðvitað er skellur að missa af tekjum Þjóðhátíðar, en samfélagið allt hefur orðið fyrir einum risastórum skelli.

Íbúar Vestmannaeyja hafa farið illa út úr smitum undanfarið, enda sýktust margir áhorfendur á bikarúrslitaleik í handbolta snemma í faraldrinum. Þeir af öllum ættu því að gera sér grein fyrir alvöru máls.