„Opinberir starfsmenn, hvort sem þeir eru hjá ríki eða borg, þurfa að geta unnið með og fyrir fólk úr öllum stjórnmálaflokkum. Því er æskilegt að þeir komi þannig fram að þeir njóti trausts úr öllum áttum og forðist að blanda sér í pólitískt argaþras. Að sama skapi getur skapað vandamál dragi þeir taum tiltekinna afla umfram það sem eðlilegt mætti teljast. Pólitískar vindáttir breytast og meirihlutar koma og fara. Áfram sitja embættismennirnir.“
Þetta segir í leiðara Morgunblaðsins í dag, þar sem ritstjórinn er Davíð Oddsson, fv. borgarstjóri í Reykjavík, forsætisráðherra og seðlabankastjóri. Fáir hafa jafn langa reynslu af nánu samstarfi við embættismenn í íslenska stjórnkerfinu og einmitt hann.
Davíð segir að skrif Stefáns Eiríkssonar borgarritara, þar sem hann sakar ónafngreinda borgarfulltrúa um að „eitra starfsumhverfi starfsfólks Reykjavíkurborgar með fordæmalausri hegðun, atferli og framgöngu“ hljóti því að vekja furðu.
„Það er hins vegar ekki að ástæðulausu að sú spurning vakni hvort starfsmenn borgarinnar séu í ákveðnu liði. Það sést til dæmis á því hvernig fréttir á vef borgarinnar eru markvisst matreiddar til að fegra hlut meirihlutans og halda hinu neikvæða til hlés.
Þetta er í annað skipti sem Stefán hnýtir í kjörna borgarfulltrúa á þessum nótum.
Það er hins vegar spurning hvers vegna starfsfólki borgarinnar finnst það vera í eldlínunni. Staðreyndin er sú að meirihlutinn í borginni og þá sérstaklega borgarstjórinn gera sér far um að varpa af sér allri ábyrgð á stjórn borgarinnar. Besta dæmið um það er braggamálið þar sem pólitíkin reynir að fría sig með öllu og setja ábyrgðina í fangið á embættismanninum.
Er virkilega við þá sem borgarritari gagnrýnir að sakast? Hann ætti kannski frekar að biðja borgarstjóra um að láta af því að varpa ábyrgðinni yfir á starfsfólkið og hætta að hegða sér eins og túristi í borginni. Þar er skekkjan,“ segir í leiðaranum.