Eru þetta þau stjórnmál sem við viljum?

Hugleiðing dagsins er í boði Sigurðar Más Jónssonar, eins reyndasta fjölmiðlamanns þjóðarinnar og fyrrverandi upplýsingaráðherra ríkisstjórnarinnar í tíð Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar.

„Stundum virðist furðu auðvelt að selja óvild í dag og fleiri og fleiri virðast líta á stjórnmál sem tæki til að vera á móti einhverjum eða einhverju, fremur en að tjá velþóknun sína á framtaki einstaklinga eða stuðning við einhverja hugmyndafræði. Nú fara menn mikinn og safna undirskriftum gegn nýjum forsætisráðherra.

Mér sýnist að mesti ákafinn komi frá vinstri mönnum með sósíalista í broddi fylkingar sem stýra nú uppákomum af flokkskontórnum og blása til mótmæla. Vilmundur Jónsson landlæknir og þingmaður Alþýðuflokksins í eina tíð orðaði þetta svona: „Munurinn á hægri og vinstri mönnum er sá, að hægri menn eru ekki á móti neinu, en vinstri menn ekki með neinu.“

Sigurður Már Jónsson, blaðamaður.

Óvild er vondur lífsförunautur og afleitur pólitískur leiðbeinandi. Ef fólk vill breyta hlutum á það að kynna skoðanir sínar og bjóða sig fram, það kallast lýðræði.

Verðum við ekki að muna að á landsvísu hlaut Sjálfstæðisflokkurinn 48.648 atkvæði í síðustu alþingiskosningum eða 24,4% og 16 þingmenn kjörna á Alþingi Íslendinga, jafnmarga og í kosningunum 2017. Þau tæp 50 þúsund sem kusu Sjálfstæðisflokkinn, á að svipta þau atkvæðaréttinum? Nánast fjórðungur þeirra landsmanna sem nýttu atkvæðisrétt sinn, eru þeir þá ómerkingar? Um 150 þúsund manns kusu annað en Sjálfstæðisflokkinn síðast. Vilja þeir nú breyta leiknum og afhrópa forsætisráðherra sem starfar í skjóli sterks meirihluta á þingi?

Eru þetta þau stjórnmál sem við viljum?“

Von er að spurt sé.