Erum langan veg frá því að ná yfirhöndinni í baráttunni við þennan vágest

„Sú farsótt sem við glímum nú við reynir á og við erum langan veg frá því að ná yfirhöndinni í baráttunni við þennan vágest. Það mun hins vegar takast.“

Þetta segir Páll Matthíasson prófessor í læknisfræði og forstjóri Landspítalans í vikulegum pistli sínum til starfsmanna sem sendur var út í morgun.

Í ljósi þess að Kórónaveiran geysar nú um heim allan og hér á landi, er rétt að deila hugleiðingum forstjórans með lesendum Viljans:

„Landspítali gegnir sérstöku og mikilvægu hlutverki í því verkefni að tryggja sem minnstan skaða vegna Covid-19 veikinnar. Það ræðst annars vegar af þjónustuhlutverki okkar, þeirri staðreynd að við höfum það starfsfólk og þá aðstöðu sem grípa þarf til þegar allt þrýtur. Hins vegar þá er Landspítali háskólasjúkrahús landsins og okkar starfsfólk þarf að beita þekkingu sinni og reynslu til að finna bestu leiðir til sigurs.

Meginverkefni okkar á Landspítala er að tryggja það að Covid-19 valdi sem minnstum skaða og sérstaklega að tryggja öryggi okkar elsta og veikasta fólks en það er lang viðkvæmast fyrir sýkingunni.

Skiljanlega er fólk áhyggjufullt. Staðan er fordæmalaus, nýjar upplýsingar berast daglega og enginn getur haldið því fram að hafa öll svörin. Við þessar aðstæður þarf að samhæfa þá þekkingu sem fyrir liggur um veiruna, smitleiðir, þá sem sýktir eru og ástand þeirra. Á sama tíma þarf að huga að getu sjúkrahússins, tækjum, einangrunaraðstöðu og síðast en ekki síst vinnufærni starfsfólks á tímum sóttkvíar og mögulegrar sýkingar. Þetta kallar á hraða ákvarðanatöku.

Viðbragðsstjórn spítalans og farsóttarnefnd funda daglega til að tryggja að þegar ákvarðanir eru teknar komi saman besta þekking á veirunni og þeim veiku annars vegar, hins vegar besta þekking á stöðunni á spítalanum og þeim björgum sem við höfum. Á milli funda þarf einnig iðulega að hafa samráð og bregðast við nýjum upplýsingum og aðstæðum.

Við Íslendingar njótum þess að hafa vel menntað og yfirvegað fólk í fararbroddi almannavarna í þessari farsótt, fólk sem stutt er af skynsömum yfirvöldum. Ákvarðanir sem eru teknar eru byggðar á bestu upplýsingum og ekki er stigið þyngra til jarðar en þörf krefur. Á sama tíma má treysta því að þegar ákvarðanir eru teknar þá miðast þær við það hvað raunverulega er best að gera, ekki popúlíska þörf.

Ég bið ykkur að sýna því skilning að oft er verið að taka ákvarðanir byggðar á takmörkuðum, síbreytilegum upplýsingum. Það verður samt að taka ákvarðanir enda er þetta stríð sem ekki vinnst án aðgerða. Tími til bollalenginga er því skammur eða enginn en fyrir vikið þarf stundum að breyta um stefnu þegar aðstæður breytast. Allt orkar tvímælis þá gert er en við hér í farsóttarnefnd og viðbragðsstjórn byggjum okkar ráðleggingar og aðgerðir á ákvörðunum sóttvarnalæknis, því sem best virðist og réttast að gera á hverjum tíma og með hag okkar veikasta fólks að leiðarljósi.
Í þessu ljósi vil ég brýna starfsfólk allt til að fylgja þeim ákvörðunum sem teknar eru frá degi til dags – og einhenda sér í verkin.“