Færir Fjóla sig um set sem bæjarstjóri?

Óvænt starfslok Geirs Sveinssonar sem bæjarstjóra í Hveragerði vöktu athygli í vikunni og vandaði hann minnihluta sjálfstæðismanna í bæjarfélaginu ekki kveðjurnar í kveðjugrein af því tilefni.

Hermt er að Hvergerðingar hafi nýjan bæjarstjóra þegar í sigtinu, en sú er Fjóla Kristinsdóttir bæjarstjóri í nágrannafélaginu Árborg.

Sjálfstæðismenn fengu hreinan meirihluta í Árborg í síðustu bæjarstjórnarkosningum og ákveðið var að tveir efstu menn listans myndu deila með sér bæjarstjórastarfinu, tvö og tvö ár. Oddvitinn Bragi Bjarnason og Fjóla, sem skipaði 2. sæti listans.

Bragi varð formaður bæjarráðs og hefur verið öflugur í skipulagsmálunum, en Fjóla tók við sem bæjarstjóri og hefur þótt standa sig afar vel, ekki síst þegar kemur að rekstrarmálum í erfiðu umhverfi. En samkvæmt samkomulaginu tekur Bragi innan tíðar við og klárar kjörtímabilið.

Það tækifæri gætu margir Hvergerðingar hugsað sér að nýta og það yrði sannarlega saga að segja, ekki síst fyrir minnihlutann þar í bæ sem sakaður er um að hafa grafið undan landsliðskempunni frægu.

Hvað Selfyssingum myndi þykja um slík vistaskipti, er svo allt önnur saga…