Fáheyrt níð djákna á baksíðu Fréttablaðsins um þingmann: Pistill fjarlægður

Guðmundur Brynjólfsson djákni.

Eflaust hafa margir lesendur Fréttablaðsins hrokkið við í morgun við lestur bakþanka blaðsins, en þar heldur djákninn og rithöfundurinn Guðmundur Brynjólfsson, verkefnisstjóri Hins íslenska biblíufélags á penna í dag.

Sólin virðist ekki hafa skinið skært í heimabæ Guðmundar, Vogum á Vatnsleysuströnd, í gær, þar sem hann hellir sér yfir sveitunga sinn, Birgi Þórarinsson guðfræðing og þingmann Miðflokksins, með þeim hætti að undrun sætir.

Guðmundur skrifar:

„Ringo var svartur og því varð honum ógurlega heitt þegar sólin skein. En hann dó ekki ráðalaus, heldur skreið undir rabarbarann og lá þar í vellystingum og slapp við sólbruna og óþarfa „tan“ – nóg var hann tanaður fyrir. Ringo þessi var nefndur eftir manni sem varð áttræður á dögunum, Ringo Starr.

Í dag býr einn af þingmönnum Miðflokksins í Minna-Knarrarnesi og hefur ekki, eftir því sem ég best veit, haft vit á því að skríða undir rabarbarann, og hefur hann þó nægar ástæður til að fara í felur. Reyndar er hann ekki svartur, nema á sálinni, en það er ekki honum að þakka. Sá mun gjamma mest á Alþingi og opinberast hans eðla heimska í hvert eitt sinn hann þvælir upp kjaftinum.“

En Guðmundur lætur sér ekki nægja að segja Birgi guðfræðing og þingmann heimskan og svartan á sálinni, heldur dregur hann foreldra hans líka inn í fúkyrðaflaum sinn, en annað þeirra; faðir Birgis er nú látinn:

„Þetta rifjaðist upp fyrir mér þegar ég sá í sjónhending Knarrarnes á Mýrum. Þá kom mér í líka í hug hvað ég væri af góðu fólki kominn og þá mundi ég um leið hvað gott fólk getur verið dæmalaust vont.

Einu sinni kom Guðrún Bjarndís Þorvaldsdóttir ofan af Mýrum og eignaðist mann suður með sjó, Þórarinn Einarsson. Af því kom endalaust gott fólk. Endalaust, en ein skepna. Sá komst á þing.

Þegar móðir mín hafði búið á Vatnsleysuströndinni við besta orðstír, og verið elskuð og dáð í sinni sveit af öllum í áratugi þá birtist þar Ringo, sá svartasti af öllum svörtum, aldrei bítill en ætíð skíthæll – nú þingmaður.

Nú er Ringo áttræður, sá sem var í Bítlunum. Hinn er andlega dauður.“

Tilefni er að spyrja: Hvar var dómgreind þeirra stjórnenda Fréttablaðsins sem ákváðu að birta þennan viðbjóð, sem er augljóslega bæði blaðinu og höfundi til ævarandi skammar?

Uppfært kl. 17: Umræddur pistill hefur verið fjarlægður af vefsvæði Fréttablaðsins. Á Vísi kemur fram, að nokkurt uppnám hafi orðið innan vébanda Fréttablaðsins vegna pistilsins og segir Jón Þórisson ritstjóri blaðsins að hann standist ekki þær kröfur sem gerðar eru til svona efnis.

„Þetta er ekki það sem við stöndum fyrir,“ segir Jón og segir að komið hafi verið á framfæri innilegri afsökunarbeiðni á framfæri við Birgi Þórarinsson þingmann vegna málsins.