Fékk haglabyssu framan í andlitið í fyrsta útkallinu

Kjörnir fulltrúar okkar á Alþingi eiga hvort tveggja mismikla og fjölbreytta lífs- og starfsreynslu að baki, eins og gefur að skilja á fjölmennum vinnustað. Í umræðum á Alþingi í gær um aukinn vopnaburð lögreglu, heimild til notkunar rafbyssa og almennt aukið ofbeldi í undirheiminum, var athyglisvert að hlýða á málflutning Guðmundar Inga Kristinssonar, formanns þingflokks Flokks fólksins, þar sem hann veiti einstaka innsýn í störf lögreglumanna og það sem þeir þurfa að takast á við á hverjum degi:

„Ég starfaði í sjö ár sem lögreglumaður og það var eiginlega liggur við í fyrsta útkallinu sem ég lenti í að ég fékk haglabyssu framan í andlitið. Hvernig átti ég að bregðast við? Hvað gat ég gert? Ég hafði kylfu, ég gat ekkert notað kylfu. Þrautþjálfaður tvítugur í júdó og karate bjargaði lífi mínu í þetta skipti, tel ég, fyrir utan það að ég þurfti að halda viðkomandi einstaklingi föstum í hálftíma þangað til hjálp barst.

Þetta var fyrir 50 árum síðan. Það sem skeði á þessum tíma, á þessum sjö árum, var að maður lenti oft á einstaklingum sem voru með exi, réðust á mann með exi, með sög, með hamri, og í mörgum tilfellum voru þeir að skaða aðra. Á þeim tíma tel ég að rafbyssur hefðu getað hjálpað og komið í veg fyrir tjón á einstaklingum.

En það sem við gleymum alltaf í þessari umræðu er: Hverjir eru lögreglumenn? Þetta eru mæður, þetta eru feður, þetta eru fjölskyldumenn. Eiga þeir ekki fullan rétt á því í sinni vinnu að meta hvað þeir þurfa til að vera öruggir í sínu starfi? Er það okkar hér á Alþingi að taka ákvörðun um það og banna þeim að nota það sem þeir telja að þeir þurfi til að vera öruggir og komast heim til sín eftir vinnudaginn? Þá segi ég nei. Við eigum að treysta þeim. Það þarf góða þjálfun og við verðum líka að sjá til þess þegar þeir eru búnir að þjálfast að þeir fái öll þau tæki og tól sem þeir þurfa til að verja sig í því starfi sem þeim er falið, að verja borgarana.

Ég segi enn og aftur: Ég treysti lögreglunni fullkomlega til að meta það rétt hvað hún þarf til þess.“

Hér er hægt að taka undir hvert orð hjá þingmanninum.