Ferskur andblær

Óhætt er að mæla við snaggaralegu viðtali ViðskiptaMoggans í dag í dag við Sigurð Atla Jónsson, stjórnarformann Íslenskra verðbréfa. Atli, eins og hann er jafnan kallaður, hefur komið víða við í íslensku viðskiptalífi, meðal annars sem forstjóri Landsbréfa, MP Banka og síðar Kviku, en nú er hann meðal annars í stjórn nýsköpunarfélagsins Arctic Green Energy sem lauk nýverið stórri erlendri fjármögnun og hyggur á landvinninga erlendis. Þá varð hann á dögunum kjörræðismaður Kasakst­ans hér á landi.

En hvað er svona áhugavert við það sem Atli hefur að segja í þessu viðtali? Jú, þar sem hann fjallar almennt um rekstrarumhverfi fyrirtækja hér á landi segir hann:

„Mitt rekstr­ar­um­hverfi er í raun all­ur heim­ur­inn. Kost­irn­ir nú eru m.a. gott aðgengi að fjár­magni, sér­stak­lega til UFS-verk­efna (um­hverf­is­mál, fé­lags­leg­ir þætt­ir og stjórn­ar­hætt­ir), ört stækk­andi millistétt, lág­ir vext­ir og hröð tækni­framþróun. Gall­arn­ir fel­ast í áhættu­tengd­um land­fræðistjórn­mál­um, t.d. hryðju­verk­um, netör­yggi og óstöðugu stjórn­mála­ástandi. Ef ég ætti að nefna galla hér á landi þá finnst mér sá stærsti vera hvað ríkið er orðið frekt í sam­keppni við borg­ar­ana. Það býður upp kjör á vinnu­markaði og stund­ar ýms­an at­vinnu­rekst­ur í beinni sam­keppni við borg­ar­ana.“

Við þetta er engu að bæta. Því fleiri sem átta sig á þeirri varhugaverðu þróun hér á landi, að báknið þenjist sífellt út og einkaframtakið sé gert tortryggilegt í almennri umræðu, því betra. Því hið opinbera er ekki hægt að reka nema kraftar atvinnulífsins snúist almennilega og ekkert samfélag getur gengið út á að koma öllum á opinbera framfærslu.