Ferskur andblær

Kallinn á kassanum hefur lengi verið þeirrar skoðunar að það vanti allt sjálfstraust í þjóna kirkjunnar í umræðunni. Þótt mikill meirihluti landsmanna sé hlynntur kirkjunni, hrekjast margir talsmenn hennar undan sífelldri gagnrýni og biðjast nánast afsökunar á tilveru sinni á stundum.

Þess vegna fylgdi sannarlega ferskur andblær ræðu Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins og fjármálaráðherra, á kirkjuþingi um helgina, þar sem hann vék að gagnrýni á kirkjuna og fyrirkomulagið um samskipti ríkis og kirkju.

Þar sagði Bjarni meðal annars:

„Ég vil ekki skorast undan því að ræða í þessu samhengi um þá ágjöf sem við sitjum undir, sem freistum þess að ná sáttum um að þróa áfram fyrirkomulagið á fjárhagslegum samskiptum ríkis og kirkju. Það er lítil sanngirni í málflutningi sumra þeirra sem hæst tala um aðskilnað ríkis og kirkju og um að best færi á því að ríkið hætti algjörlega að hafa nokkur afskipti af fjármálum neinna trúfélaga.“

Bjarni sagði að sér virtist oft sem málflutningur af þessu tagi stafi einkum frá mjög ungu fólki, sem ekki hafi lent í neinum áföllum og ekki séð það starf sem kirkjan vinnur við sálusorgun og ýmis konar félagsþjónustu.

„En jafnvel á Alþingi er töluverður hópur þingmanna sem virðist ekki tilbúinn til að viðurkenna að neinu leyti að þjóðkirkjan hafi hlutverk eða eigi erindi við samtímann. Ekki heldur til að virða þá samninga sem gerðir hafa verið.

Þetta gerir það enn brýnna en ella að ríkið og kirkjan nái sem fyrst saman um að þróa áfram samband sitt og sjálfstæði kirkjunnar innan skynsamlegs ramma, sem unnt er að ná sæmilega víðtækri sátt um,“ sagði Bjarni ennfremur.

Undir hvert einasta orð hans skal tekið.