„Það er ástæða til þess að fagna nýgerðum kjarasamningum. Þessir samningar eru til nærri fjögurra ára – og eru í raun og veru ný útgáfa af þjóðarsáttarsamningum frægu frá árinu 1990. Ekki er hægt að segja annað en verkalýðshreyfingin hafi hér svarað þeirri gagnrýni sem hún hefur fengið á sig vetur – m.a. frá þeim sem hér ritar. Guð láti á gott vita. Eftir að hafa litið örsnöggt yfir samninganna – sem og útspil ríkisstjórnarinnar – eru það helst fjögur atriði sem vekja athygli,“ segir dr. Ásgeir Jónsson, forseti Hagfræðideildar Háskóla Íslands á fésbókinni nú í dag.
Ásgeir, sem er meðal umsækjenda um stöðu seðlabankastjóra, hefur eins og svo margir aðrir rýnt í lífskjarasamning þann sem kynntur var undir miðnættið í gær og nefnir þessi atriði helst:
1) Nýr þjóðhagsrammi. Kjarabaráttan hefur nú verið sett í samhengi við þróun þjóðhagsstærða – s.s. hagvaxtar. Þetta er mjög jákvætt – í litlu opnu hagkerfi hanga allar stærðir saman. Hagvaxtartenging samninganna ætti að skapa hvata til þess að allir vinni saman að verðmætasköpun. Markaðslögmálin eru viðurkennd í reynd – s.s. að besta leiðin til þess að lækka húsaleigu er að auka framboð af húsnæði og lækka vexti.
2) Gullæðið í ferðaþjónustu er búið. Hagvöxtur frá 2011 hefur byggst á mikilli fjölgun ferðamanna og innflutningi á ófaglærðu vinnuafli. Þessir samningar munu hækka launakostnað ferðaþjónustunnar með því að lyfta lægstu töxtum – sem mun verða greininni þungbært. Ísland er nú þegar dýrasta land í heimi með ein hæstu laun fyrir ófagfærða í Evrópu. Eins og staðan er nú hefði þurft gengisfall til þess að ýta greininni aftur af stað – sem er ekki í boði. Aðrar greinar verða nú að taka við hagvaxtarkeflinu – sem er að sumu leyti mjög jákvætt. Ísland mun áfram vera vaxandi ferðaþjónustuland – en þessi grein mun ekki verða jafn yfirþyrmandi þegar litið er fram í tímann.
3) Kæling á fasteignamarkaði. Hækkun fasteignaverðs síðustu ár hefur að miklu leyti stafað lækkun verðtryggðra raunvaxta á fasteignalánum til 40 ára — sem lífeyrissjóðirnir hafa veitt. Takmörkun á tímalengd verðtryggðra útlána mun breyta styrkleikahlutföllum á lánamarkaði – þar sem bankarnir munu fá nýja stöðu sem helstu veitendur óverðtryggðra lána. Hver áhrifin verða á fasteignamarkaði velta á því hvernig að nafnvextir muni þróast í kjölfarið – en eins og staðan er nú er upphafsgreiðslubyrði verðtryggðra lána mun lægra en óverðtryggðra.
4) Seðlabankinn í skotlínunni. Gömlu þjóðarsáttarsamningarnir lögðu áherslu á verðbólgu og rauð strik. Þessir samningar leggja áherslu á nafnvaxtastig. Í frjálsu hagkerfi endurspegla nafnvextir verðbólguvæntingar – náið er nef augum. Hins vegar, hefur Seðlabankinn lögbundna skyldu til þess að halda verðstöðugleika — og beita stýrivöxtum. Vonandi mun nú skapast færi til vaxtalækkanna — en þegar til framtíðar er litið geta kjarasamningar ekki bundið Seðlabankann eða varnað því að bankinn hækki vexti — sé þess þörf.