Fljótum sofandi að feigðarósi

Kallinum á kassanum barst lesendabréf, sem rétt er að birta hér;

Ágæta ritstjórn,

Þessi ríkistjórn sem við höfum er eins værukær og hugsast getur. Öll hennar störf einkennast af því, að redda málum þar sem allt er komið í strand.

Er sama hvort við nefnum heilbrigðiskerfið, eða vegakerfið (hvers vegna er ekki löngu búið að takmarka umferðarhraða yfir allar einbreiðar brýr?).  Ætti að vera hægt að finna út úr því með tvo dýralækna í forsvari.

Núna dregur ríkisstjórnin lappirnar í kjaradeilunni á alveg sama hátt og í öðrum málum, bíður eftir að einhver geri þetta fyrir þá.  Þegar við öllum blasir, að að það eina sem getur komið í veg fyrir stórslys, er að ríkisstjórnin fari að vinna vinnuna sína, og komi með alvöru útspil í kjaraviðræðunum.  

Verkalýðsforystan verður ekki í vandræðum með að semja við Samtök atvinnulífsins þegar stóru málin eru frá. En ríkisstjórnin með þau Katrínu og Bjarna í broddi fylkingar þarf að hafa kjark og dug til að koma með alvöru tillögur, t.d. um hækkun persónuafsláttar, niðurgreidda vexti til þeirra sem ekki eiga húsnæði og fleira í þeim dúr.

Ef slíkar alvöru breytingar næðust í gegn, myndu kjarasamningar renna í gegn með hóflegum hækkunum, ef lífskjör yrðu löguð, þannig að fólk gæti lifað með reisn.

Ef ríkisstjórnin hefur á hinn bóginn ekki vit á því að gera eitthvað fyrr en seinna, er hætt við að fjöldafundirnir á Austurvelli verði baklandinu hjá Vinstri grænum óbærilegir. Og við þurfum ekki meiri pólitískan óstöðugleika og einar kosningarnar enn á þessu blessaða landi.

Kv. Dyggur en áhyggjufullur lesandi.

Svo mörg voru þau orð.