Formaður harðneitar ásökunum um ölvun

Skjáskot ruv.is

Íslensk stjórnmálasaga geymir mörg skrautleg augnablik, en það verður að segjast eins og er að það er óvenjulega vasklega gert hjá Glúmi Baldvinssyni, formanni hins nýja Frjálslynda lýðræðisflokks, að þurfa að sverja fyrir meinta ölvun sína eftir kappræður formanna flokkanna á RÚV í gærkvöldi.

Glúmur er af vestfirsku baráttukyni (Jón Baldvin, Hannibal) í bland við borgaralegt íhald Vesturbæjarins (Bryndís Schram) og hann var mættur sem slíkur í kappræður gærkvöldsins; dró augað í pung og svaraði með svolitlum skætingi og breiðsíðum á víxl. Netverjar gerðu því strax skóna, sumir hverjir, að þarna kynni Bakkus að hafa verið óboðinn með í för, en því hefur frambjóðandinn neitað staðfastlega í dag.

Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn ber stórt nafn, en fylgi hans er lítið enn sem komið er og framboðslistar enn að koma fram. Forsprakkinn Guðmundur Franklín Jónsson baðaði sig í sviðsljósinu í síðustu forsetakosningum með digurbarkalegum yfirlýsingum og svo er að sjá að Glúmur hafi sótt sama skólann…