Formennska Heiðu Bjargar í uppnámi?

Til stórra tíðinda gæti dregið á landsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga í Silfurbergi í Hörpu í dag, en margir sveitarstjórnarmenn víðsvegar að af landinu, segja að formaður sambandsins, Heiða Björg Hilmisdóttir, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, njóti ekki trausts alls sveitarstjórnarfólks.

Aðdragandi málsins felst í aðkomu sveitarfélaganna og sambandsins að kjarapakka ríkisstjórnarinnar sem kynntur var fyrir síðustu helgi. Eins og Viljinn hefur skýrt frá, hafði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra skýra verksögn í málinu af hálfu stjórnvalda, en fyrir sveitarfélögin lék Heiða Björg lykilhlutverk.

Svo virðist sem samband hennar við umbjóðendur í sveitarstjórnum um land allt, hafi ekki verið mikið í þessari vinnu, því alls 26 oddvitar Sjálfstæðisflokksins af öllu landinu, fara þá óvenjulegu og hörðu leið að gagnrýna formann Sambands íslenskra sveitarfélaga í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag, sama dag og landsþingið hefst í Hörpu.

Segja oddvitarnir að Heiða Björg hafi beinlínis farið gegn vilja sveitarfélaganna í aðkomu sinni að kjarasamningum á almennum vinnumarkaði.

„Því var treyst að formaður myndi starfa sam­kvæmt ein­dregn­um vilja sveita­stjórna og bók­un stjórn­ar og myndi upp­lýsa aðila vinnu­markaðar­ins og for­sæt­is­ráðherra um af­stöðuna með skýr­um hætti. Ljóst er að svo var ekki,“ segja þeir og benda sérstaklega á ákvörðun um gjaldfrjálsar skólamáltíðir. Eins og Viljinn sagði frá í fyrri viku, er það upphaflega stefnumál VG og var orðað fyrst af forsætisráðherra á fundi með fulltrúum verkalýðshreyfingarinnar og eftir það varð það fljótlega að „ófrávíkjanlegu skilyrði“ verkalýðshreyfingarinnar fyrir því að kjarasamningar næðust.

Í greininni segja sveitarstjórnarmenn Sjálfstæðisflokksins, að meginkrafan á sveitarfélögin hefði frá upphafi snúið að hóflegum gjaldskrárhækkunum, en hugmyndir um gjaldfrjálskar skólamáltíðir hefðu fyrst verkið kynntar á fundi fyrir rúmum tveimur vikum. Það hefði komið flestum á óvart að sveitarfélögin væru allt í einu orðin lykilbreyta í kjaraviðræðunum og með þessum hætti. Andstaðan á fundinum hefði verið nær einróma og ekki einskorðast við Sjálfstæðisflokkinn.

Segja greinarhöfundar að komið hafi í ljós og þyngt brún þeirra enn frekar, að viðræður for­manns­ins Heiðu Bjargar við rík­is­valdið hafi hafist strax í upp­hafi árs og fram­haldið í lok janú­ar eða mánuði áður en sveit­ar­stjórn­ar­fólki var kynnt þessi hug­mynd.

Á stjórnarfundi Sambandsins þann 1. mars sl., hafi enn verið mikil mótstaða meðal flestra sem tjáðu sig og það hafi komið fram í bókun þar sem hvatt var til þess að ríkisvaldið „leiti annarra leiða við að út­færa mark­mið um gjald­frjáls­ar skóla­máltíðir en beint í gegn­um gjald­skrár sveit­ar­fé­laga. Stjórn­in er reiðubú­in til sam­tals um málið á breiðum grund­velli með það að leiðarljósi að tryggja barna­fjöl­skyld­um kjara­bæt­ur og vel­ferð.“

Eftir þessu hafi hins vegar ekkert verið unnið; formaðurinn þannig gengið bæði gegn vilja sveitarstjórna og bókun stjórnar og þá hafi hún haldið því ranglega fram í fjölmiðlum að sátt ríkti um framkvæmdina.

Í lok greinar sinnar, segir að „afar mikilvægt“ sé að formaðurinn skýri aðkomu sína að kjara­samn­ings­gerðinni á fundi dagsins í Hörpu.