Forsætisráðherra í 323 daga árið 2017: Gengur betur í annað sinn?

Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins sem verður senn forsætisráðherra í endurnýjuðu ríkisstjórnarsamstarfi Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Vinstri grænna, var forsætisráðherra áður í tæpt ár. Þetta var árið 2017 og Bjarni var forsætisráðherra í alls 323 daga í stjórn Sjálfstæðisflokks með Viðreisn og Bjartri framtíð, uns hann sagði af sér eftir að Björt framtíð dró sig út úr stjórnarsamstarfinu vegna deilna um aðkomu föður forsætisráðherrans að umsókn dæmds sakamanns um uppreisn æru.

Bjarni hefur verið alþingismaður í Suðvesturkjördæmi í ríflega tuttugu ár, eða síðan 2003. Hann varð fjármála- og efnahagsráðherra 23. maí 2013 til 11. janúar 2017. Svo forsætisráðherra 11. janúar til 30. nóvember 2017. Þá aftur fjármála- og efnahagsráðherra 30. nóvember 2017 til 27. nóvember 2021 og síðan 28. nóvember 2021. Í fyrra sagði hann af sér embætti fjármálaráðherra eftir álit Umboðsmanns Alþingis um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka og varð utanríkisráðherra.

Bjarni hefur verið formaður Sjálfstæðisflokksins síðan 2009. Í Valhöll hefur lengi verið talið að Bjarni sitji nú sitt síðasta kjörtímabil sem formaður, en snúningurinn nú sem endar með því að hann verði forsætisráðherra að nýju, gæti breytt þeirri stöðu. Varaformaðurinn Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir verður aftur utanríkisráðherra eftir stutt stopp í fjármálaráðuneytinu.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, tekur við embætti fjármálaráðherra og Svandís Svavarsdóttir verður nýr innviðaráðherra.