Forsetaframbjóðandi fellur á prófinu

Eitt eftirminnilegasta sjálfsmark samanlagðrar kosningasögu okkar Íslendinga varð í dag þegar lögmaðurinn Arnar Þór Jónsson, sem aukinheldur er fyrrverandi héraðsdómari, hvorki meira né minna, kærði til siðanefndar Blaðamannafélagsins skopmynd teiknarans Halldórs Baldurssonar sem birtist á Vísi.

Þetta er lögmaðurinn sem í faraldrinum barðist gegn ofstýringu ríkisvaldsins og talaði með tjáningafrelsi borgaranna. Nú er komið í ljós að það tjáningarfrelsi er mikilvægt, nema þegar hann sjálfur er skotspónninn.

Þetta er þeim mun óskiljanlegra, því að Arnar Þór hefur verið á ágætis siglingu á undanförnu og þótt hann hafi líklega aldrei átt nokkurn möguleika á sigri í kosningunum, hefur hann náð að marka sér ákveðna sérstöðu og höfðað til kristinna og borgaralegra gilda.

En í dag birtist hann þjóð sinni sem spéhræddur lítill kall, sem þolir ekki háð eða grín og tekur það óstinnt upp. Hver skyldi vilja forseta sem er þannig þenkjandi? Forseta sem ætlar að anda ofan í hálsmálið á lýðræðislega kjörnu þingi og kæra allt það sem honum líkar ekki hverju sinni.

Allir sem taka þátt í stjórnmálum hafa þurft að þola endalaust háð og gagnrýni, sumt afar ómálefnalegt. En skopmyndir Halldórs Baldurssonar falla ekki í þann flokk sem kæra þarf, fremur en í reynd nokkrar aðrar skopmyndir.

Að lögmaðurinn hafi ekki með sinni heilbrigðu skynsemi áttað sig á því, en þess í stað látið stundarreiði leiða sig út í ógöngur í morgunsárið, er skýr vísbending um að hann sé ekki rétti maðurinn til að verða forseti okkar Íslendinga. Dómgreindarleysið sem þarna birtist er skýrt og blasir við öllum.