Óvænt var tilkynnt nú síðdegis, að Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marel, hefði óskað eftir því að láta af störfum frá og með deginum í dag vegna persónulegra ástæðna. Stjórn félagins hefur fallist á starfslokin og tekur Árni Sigurðsson, sem gegnt hefur starfi aðstoðarforstjóra Marel, við starfi forstjóra tímabundið á meðan stjórn mun finna félaginu forstjóra til framtíðar.
Árni Oddur hefur nú upplýst, að Arion banki hafi gert veðkall í öllum hlutum hans í Eyri Invest vegna láns í vanskilum og þar með þeim bréfum sem Eyrir á í Marel.
„Arionbanki greip til þeirra aðgerða þrátt fyrir að ákvæðum langtímalánasamnings míns við bankann hafi verið fullnægt af minni hálfu, en ég hef átt í viðræðum við bankann síðustu vikur, sem ég taldi vera í fullu trausti, og gekk svo langt að leggja allar mínar eigur undir til að tryggja að veðhlutfall lánsins næmi tvöfaldri fjárhæð í lánasamningi,“ segir Árni Oddur og bætir við: „Á síðustu stundu bætti bankinn við óaðgengilegum kröfum umfram skilmála lánasamnings, hafnaði innágreiðslu upp á 335 milljónir króna og kaus að leysa bréfin til sín frekar en að efna lánasamninginn. Bréfin leysti bankinn til sín á undirliggjandi virði eigna skv. lánasamningi 31. október, gjaldfelldi lánið en hefur enn ekki skilað umframvirði eigna.“
Árni Oddur segir þessu hafa verið mótmælt af lögmönnum hans og málið hafi verið kynnt Fjármálaeftirlitinu. Hann ætli að einbeita sér að því að fá skýrleika í málið og leysa úr þessari réttaróvissu. Við þær aðstæður hafi ekki verið annað að gera en stíga til hliðar sem forstjóri, til að lágmarka líkur á því að áðurnefnd staða skaði Marel.
Tíðindin í dag munu virka sem rautt aðvörunarblys á íslenskum hlutabréfamarkaði. Annars vegar undirstrikar þetta stórversnandi stöðu Marels, sem fyrir nokkrum árum var ekki talið geta gert neitt rangt í viðskiptalífinu. Og hitt, sem margir hafa óttast um skeið, að bankarnir herði nú á veðköllum sínum í kjölfarið á hruni virði hlutabréfa í mörgum stórum félögum. Fari banki af slíkri hörku gegn forstjóra Marel, geta menn ímyndað sér hvort minni spámenn verða teknir einhverjum vettlingatökum.
Það eru því áhugaverðir tímar framundan í íslensku viðskiptalífi og líklegt að ýmsir sem lifað hafa hátt og verið áberandi þurfi að laga sig að nýjum og gjörbreyttum veruleika. Verðbólgan, vextirnir og verri staða er ískaldur raunveruleikinn og einn viðmælandi Viljans segir að gamla reglan sé enn í gildi, „að bankinn vinnur alltaf“…