Bjarni Benediktsson á „fleygiferð út úr pólitíkinni“?

Fregnir gærdagsins um að Svanhildur Hólm Valsdóttir, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs og fv. aðstoðarmaður Bjarna Benediktssonar í forsætis- og fjármálaráðuneytunum, verði næsti sendiherra Íslands í Washington hafa vakið mikla athygli.

Tvennt kemur til. Annars vegar þykir þetta eindregið benda til að Bjarni sé senn á förum úr stjórnmálum og vilji „ganga frá ýmsum lausum endum“ áður en til þess kemur. Hitt að djarft þykir spilað hjá ráðherranum, ekki síst í ljósi ýmissa umdeildra mála undanfarið, að hann ráði pólitískan aðstoðarmann sinn til margra ára í krúnudjásn utanríkisþjónustunnar þegar kemur að sendiherrastöðum, sjálfa höfuðborg Bandaríkjanna.

Oddný Harðardóttir, fv. fjármálaráðherra, segir skipan utanríkisráðherra í sendiherrastöður í Washington og Róm vera birtingarmynd spillingar sem er viðurkennd innan ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur.

„Ég gagnrýni ekki fólkið sem skipað er í stöðurnar. Ég gagnrýni utanríkisráðherra fyrir ósvífnina og ríkisstjórnina fyrir að láta slíkt viðgangast,“ bætir hún við.

„Frá tíð Össurar Skarphéðinssonar í stól utanríkisráðherra hefur verið lögð áhersla á að skipa fagfólk með reynslu úr utanríkisþjónustunni í stöður sendiherra,“ segir Hanna Katrín Friðriksson, þingmaður Viðreisnar.

„Í núverandi ríkisstjórn hafa tveir utanríkisráðherrar Sjálfstæðisflokksins haldið í þessa reglu. Þriðji utanríkisráðherrann, Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins hefur nú fortíðarvætt embættið með því að skipa pólitískan aðstoðarmann sinn og ráðgjafa til marga ára sem sendiherra í Washington, mikilvægasta sendiráð Íslands á tímum þar sem sjaldan hefur verið meira undir. Þetta eru ekki góðar fréttir,“ bætir þingkonan við.

Kveður með allmiklum hrossabrestum

Baldur Hermannsson, samfélagsrýnir og fv. kennari og kvikmyndagerðarmaður, segir þetta beina vísbendingu um að Bjarni sé á förum:

„Bjarni Ben er á fleygiferð út úr pólitíkinni og kveður með allmiklum hrossabrestum … og því ekki gauka glaðningi að gömlum samherjum áður en hurð skellur að stöfum?

Og Sjálfstæðisflokkurinn veifar þar með til kjósenda og óskar óformlega eftir ljúfsárri hvíld í svo sem fjögur ár … eða langar hann kannski mest til að leggjast í kör eins og aðrir öldungar og hætta þessu fjárans basli fyrir fullt og allt?“