Framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins segir borgina vera stjórnlausa

Byggingaframkvæmdir í höfuðborginni. / Viljinn: Rúnar Gunnarsson.

Þung orð féllu í garð borgaryfirvalda í útvarpsþættinum Sprengisandi á Bylgjunni í gær, þegar Dóra Björt Guðjónsdóttir borgarfulltrúi Pírata og formaður skipulagsráðs og Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, tókust á um húsnæðismálin og hverju væri um að kenna, að byggt er íbúðarhúsnæði langt undir þörfum.

Eins og Viljinn sagði frá um helgina, hafa Samtök iðnaðarins bent á að Reykjavíkurborg birti villandi og rangar upplýsingar um lóðaframboð og til dæmis sé fjöldi þéttingarreita á lista yfir byggingarhæfar lóðir, t.d. þar sem bílaumboðið Hekla er og Íslandsbankahúsið við Kirkjusand, þar sem enn standa byggingar og langt og dýrt niðurrifsferli eftir áður en hægt er að hefja þar byggingaframkvæmdir.

Niðurstaðan er semsé sú að fjöldi byggingarhæfra lóða, skv. upplýsingum Reykjavíkurborgar, eru ekkert byggingarhæfar.

Dóra Björt blés á þetta tal í Sprengisandi og vildi leggja áherslu á að borgin hefði gert mikið átak í upplýsingagjöf, meðal annars um fjölda lóða sem væru byggingarhæfar og til reiðu. Það var eins og að dagblað bregðist við upplýsingum um að það hafi birt ranga frétt, með því að auka dreifingu blaðsins svo fleiri fái séð vitleysuna!

Nú er Sigurður Hannesson biskupssonur ekki þekktur fyrir stóryrði á opinberum vettvangi, en greinilegt var að honum ofbauð hvernig borgarfulltrúinn neitaði að horfast í augu við raunveruleikann og hélt þess í stað einhverjum Orwellskum hliðarveruleika fram.

Lokaorð hans voru þessi í þættinum: „Ég verð að segja það bara í lokin að annað hvort skilur Dóra og hennar fólk í meirihlutanum ekki vandann eða þá að embættismenn í borginni eru að plata þau. Niðurstaðan af því, hvoru tveggja er að borgin er stjórnlaus.“

Þung orð, en algjörlega beint í mark. Eins og sagt var hér í pistli um helgina, blasir við að það þarf að byggja miklu meira, skapa hvata til þess og útvega hagkvæmar lóðir, ekki aðeins á dýrum þéttingarreitum sem hafa gengið kaupum og sölum hjá fasteignafélögum. Ef ætlunin er að leysa húsnæðisvandann og koma böndum á verðbólguna, verður að breyta um takt strax. Og kannski byrja að segja sannleikann og tala út frá staðreyndum. Það væri góð byrjun.