Framsókn ætlar að endurheimta fylgi frá Samfylkingunni

Athygli vekur að bæði formaður og varaformaður Framsóknarflokksins beindu spjótum sínum að Samfylkingunni á flokksþingi í dag og er greinilegt að Framsókn líkar ekki fylgistap í skoðanakönnunum og ætlar að endurheimta það fylgi sem flokkurinn hefur misst til Samfylkingarinnar.

Lilja Alfreðsdóttir viðskipta- og menningarmálaráðherra, gekk harðast fram í dag er hún spurði hvort einhver tæki virkilega mark á Samfylkingunni og sakaði flokkinn um að stela stefnumálum Framsóknarflokksins og ætla með breytingum á stefnu sinni að koma sér fyrir á miðju íslenskra stjórnmála. Allt í einu tali Samfylkingin nú eins og hún sé andsnúin aðild að Evrópusambandinu, fylgjandi aukinni orkuöflun með virkjanaframkvæmdum og styðji hert útlendingalög.

„Svo ég taki þetta nú á aðeins alvarlegra plan. Því hver tekur Samfylkinguna alvarlega? Nei, ég er bara að grínast. Þetta var bara létt grín,“ sagði Lilja við mikinn hlátur fundargesta.

Samfylkingin hefur farið með himinskautum í skoðanakönnunum meðan ríkisstjórnarflokkarnir búa við rýran hlut í einkar óvinsælu stjórnarsamstarfi. Komið er kosningahljóð í flesta flokka, ef ekki alla, og búist við kosningum í haust eða snemma vetrar. Framsókn er með flokksþingi komið í landsþekktan kosningagír og ætlar nú að bíta meira frá sér, eftir að hafa setið mest á hliðarlínunni í deilum milli Sjálfstæðisflokks og VG.