Framsókn og Miðflokkur bíða átekta

Haraldur Benediktsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins.

Úrslitin í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi voru kannski eftir bókinni, þar sem Haraldur Benediktsson missti oddvitasæti sitt til varaformanns flokksins, Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur iðnaðar- nýsköpunar og ferðamálaráðherra.

Mörgum þótti freklega framhjá Haraldi gengið (eins og Páli Magnússyni í Suðurkjördæmi) þegar stillt var upp í ríkisstjórn í upphafi kjörtímabilsins. Oddvitasæti beggja dugðu þá ekki til, en leitað var til Þórdísar sem skipaði annað sætið á lista flokksins í Norðvesturkjördæmi. Hún er nú orðinn oddviti flokksins, en Haraldur liggur undir feldi og ákveður næstu skref, hafandi lýst því yfir fyrir prófkjör að annað hvort tæki hann fyrsta sætið eða ekkert.

Frambjóðendur og stuðningsfólk Miðflokksins og Framsóknarflokksins í kjördæminu fylgjast spenntir með atburðarásinni, því víst er að fjarvera Haraldar, sem er fyrrverandi formaður Bændasamtaka Íslands, yrði blóðtaka fyrir Sjálfstæðisflokkinn í þessu dreifbýla kjördæmi en um leið vatn á myllu þessara tveggja flokka sem gera að mörgu leyti út á sömu mið í sinni pólitík…

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins.