Framtíð Fréttastofu Stöðvar 2 og Bylgjunnar hangir á bláþræði

Þórir Guðmundsson, fréttastjóri Stöðvar 2, Bylgjunnar og Vísis.

Blaðamenn ganga til atkvæðagreiðslu í dag um nýgerðan kjarasamning milli Blaðamannafélags Íslands og Samtaka atvinnulífsins fyrir hönd þriggja stórra fjölmiðlafyrirtækja, það er Sýnar (Stöð 2, Bylgjan, Vísir og fleiri miðlar), Árvakur (Morgunblaðið, mbl.is, K100) og Torgs (Fréttablaðið, Hringbraut). Næsta víst er að samningurinn verði kolfelldur, enda mælir samninganefnd blaðamanna ekki einu sinni með honum, og því útlit fyrir hörð verkfallsátök á næstunni hjá blaðamönnum.

Málið er snúið, því fáir mótmæla því að launataxtar blaðamanna hafa setið verulega eftir, en um leið liggur fyrir að fjölmiðlafyrirtækin hér á landi glíma við mjög erfið rekstrarskilyrði, gegndarlausan taprekstur og mega því ekki við miklum áföllum — sérstaklega ekki í aðdraganda jólanna þegar auglýsingatekjur eru þó með mesta móti.

Það eykur enn á dramatíkina, að þessa dagana er um það hvíslað á skrifstofum Sýnar, að framtíð Fréttastofu Stöðvar 2 og Bylgjunnar, hangi á bláþræði. Svo gæti hreinlega farið að hún verði lögð niður nú um mánaðarmótin.

Heiðar Guðjónsson fjárfestir og forstjóri Sýnar.

Sýn hefur glímt við mikinn rekstrarvanda eftir samruna Vodafone og miðla sem áður tilheyrðu 365-veldinu, og Heiðar Guðjónsson og hans fólk leita nú allra leiða til hagræðingar. Ekki þarf mikinn viðskiptamann til að staldra þar við rekstrarkostnað fréttastofunnar og minnkandi tekjur sem koma þar á móti — ekki síst á tímum þar sem línuleg dagskrá á mjög undir högg að sækja.

Fréttastofan gegnir mjög mikilvægu hlutverki í okkar litla samfélagi. Hún er fjölmennur vinnustaður og fréttamenn og dagskrárferðarfólk hennar hafa gegnt lykilhlutverki í þjóðmálaumræðunni allt frá stofnun. Samkeppnin við ríkisvaldið, með alla sína forgjöf og fyrirferð á auglýsingamarkaði, er hins vegar mikil og líklegt er að eitthvað þurfi undan að láta.

Um mánaðarmótin rennur út samningur Sýnar um aðgang Vísis að efni Fréttablaðsins og þá renna líka út tímamörk sem Samkeppniseftirlitið setti við samruna 365 og Vodafone um óbreyttan rekstur fréttastofunnar. Af þeim sökum er talið líklegt að til tíðinda dragi á allra næstu dögum.