Landsréttur hefur verið töluvert mikið í fréttum sem kunnugt er og skipan tiltekinna dómara þar umdeild, eins og dómur Mannréttindadómstóls Evrópu ber með sér. Meðan yfirdeild réttarins metur hvort áfrýjun ríkisins verður tekin fyrir, sitja fjórir dómarar réttarins á hliðarlínunni og bíða þess sem verða vill, en álag á aðra dómara er þeim mun meira.
Þekkt er að lögmenn eiga misjöfnu gengi að fagna í erindrekstri sínum og málflutningi, en einn virðist þó kunna alveg sérstaklega við sig fyrir Landsrétti. Sá er Bjarki Þór Sveinsson, einn eigenda Málflutningsstofu Reykjavíkur (og fv. formaður ÍR) en hann vann öll þrjú mál sín fyrir dóminum sl. föstudag.
Bætist sú þrenna við aðra þrenningu mála sem hann hefur flutt fyrir réttinum og er skemmst frá því að segja, að öll hafa þau unnist.
Sex sigrar í jafnmörgum einkamálum er ekki slakur árangur og er eftir þessu tekið í stétt lögmanna, svo sem nærri má geta.