Fv. ritari VG: Hreyfing sem verður lit- og máttlausari með degi hverjum

Sóley Tómasdóttir, fv. borgarfulltrúi og ritari Vinstri hreyfingarinnar — græns framboðs, telur sinn gamla flokk hafa vikið frá upphaflegum markmiðum sínum í stjórnarsamstarfinu með Sjálfstæðisflokki og Framsókn.

Í vikunni var tilkynnt að Andrés Ingi Jónsson hefði yfirgefið þingflokk Vinstri grænna og myndi sitja sem þingmaður utan flokka út kjörtímabilið.

Sóley segir á fésbókinni að þetta sé hugrökk og hárrétt ákvörðun hjá Andrési og því ætti hún líklega að fagna þessum tíðindum.

„En gleðin er aðeins tregablandin. Það er vont að sjá hvernig hreyfingin sem ég einu sinni trúði að gæti breytt samfélaginu til hins betra verður lit- og máttlausari með hverjum deginum,“ segir hún.