Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, er mjög ósáttur við þá ákvörðun ríkisstjórnarinnar að samþykkja tillögu sóttvarnalæknis um hertar aðgerðir á landamærunum.
„Sóttvarnarlæknir hefur sagt að smitin þessa dagana séu rakin til Íslendinga sem komi með veiruna heim að utan. Ríkisstjórnin ákvað því áðan að setja auknar kröfur á bólusetta erlenda ferðamenn (þá eina Evrópulandið sem gerir það). En engar auknar kröfur eru settar á Íslendinga á heimleið frá utlöndum.,“ segir Jóhannes á fésbókinni og bætir við: „Fyrirgefið, en í hvaða sirkus er ég eiginlega staddur?“
Ljóst er að innan ferðaþjónustunnar er mikil andstaða við áformaðar breytingar, enda hefur Jóhannes Þór sagt að hertar aðgerðir geti leitt til mikilla afbókana á þegar pöntuðum ferðum til landsins næstu vikurnar.