Elsa Þorkelsdóttir, lögfræðingur og eiginkona Más Guðmundssonar seðlabankastjóra, rifjar upp á fésbókinni í dag, að nákvæmlega séu tíu ár frá því umsóknarfrestur rann út um stöðu seðlabankastjóra.
„Maðurinn minn var meðal umsækjanda og var síðar ráðinn. Þá bjuggum við í Sviss. Að senda inn umsókn var ekki tekin í sátt. Hann vildi og önnur dóttir okkar, ég ekki og hin dóttirin,“ segir hún.
„Hvern hefði grunað heiftina og grimmdina sem beið okkar á netmiðlum,“ bætir hún við og segir amx.is hafa toppað allt, skömm sé þeim.
„Nú stefnir í lok þessa tímabils sem hefur kennt mér margt. En fyrst og fremst hlakka ég til að vera ekki lengur gift opinberri persónu, fara með honum í verkefni erlendis og bara njóta þess að eiga tíma með þeim frábæra og fallega manni sem ég elska meira en nokkur orð geta lýst,“ segir Elsa í einlægri færslu sinni.