Þótt margt sé enn órætt millum stjórnarflokkanna þriggja og verkaskipting til næstu fjögurra ára liggi enn ekki fyrir, er orðið ljóst að Katrín Jakobsdóttir verður áfram forsætisráðherra. Katrín nýtur gríðarlegs trausts meðal landsmanna og verkstýrir viðræðunum eins og herforingi, enda þótt flokkur hennar sé sá minnsti í samstarfinu og hafi í besta falli unnið varnarsigur í kosningunum en í reynd tapað nokkru fylgi.
Hvað veldur þessari sterku stöðu Katrínar? Hver er galdurinn? Eflaust eru til ýmsar kenningar um það, en víst er að margir kusu VG á dögunum vegna persónulegs stuðnings við forsætisráðherrann. Viljinn þekkir mörg dæmi um kjósendur sem töldu ekki ganga að Katrín fengi einhverja útreið í kosningum eftir fumlausa verkstjórn í heimsfaraldri og kusu því stjórnmálaflokk sem þeir styðja ekki að öðru leyti. Þess vegna meðal annars náði VG að rétta svo mjög úr kútnum á lokasprettinum miðað við kannanir.
Sáttasemjarinn og sameiningartáknið Katrín Jakobsdóttir er svo annar stór þáttur. Kom það glögglega fram í Kastljósi gærkvöldsins í Ríkissjónvarpinu, þar sem hún talaði ekki sem formaður Vinstri grænna, heldur leiðtogi stjórnarflokkanna allra og raunar forsætisráðherra þjóðarinnar.
Það er þess vegna sem Katrín Jakobsdóttir nýtur sem stjórnmálamaður miklu meira fylgis en flokkurinn sem hún fer fyrir. Sjálfstæðismenn og Framsóknarmenn sem horfðu á forsætisráðherrann í gærkvöldi sáu þar ekki formann eins stjórnarflokksins að verja sína hagsmuni, heldur sameiginlegan leiðtoga. Þess vegna sýna fylgiskannanir að fleiri sjálfstæðismenn til að mynda vilja sjá Katrínu leiða þessa ríkisstjórn, en formann þeirra eigin flokks, Bjarna Benediktsson. Með allri virðingu fyrir honum.
Auðvitað munu flokkarnir þrír á endanum ná saman um samstarf til næstu fjögurra ára. Það er ríkisstjórn starfandi í landinu og því er hægt að gefa sér góðan tíma í að stokka spilin upp á nýtt og koma með ferskar áherslur og mannabreytingar. Það verður enginn ófriður um þessa ríkisstjórn meðan Katrín stýrir fleyinu og í því felst mikill styrkur. Að sama skapi er mikill styrkleiki fólginn í því að bæði Bjarni og Sigurður Ingi, formaður Framsóknar, eru fyrrverandi forsætisráðherrar. Þetta er reynslumikið fólk. Og þótt allir verði að gefa nokkuð eftir og sumir í einstökum flokkum gráti málamiðlanir þvers og kruss á kostnað hugsjóna eða stefnumála, er staðreyndin sú að áframhaldandi samstarf þessara flokka undir forystu Katrínar er það sem þjóðin vill og þjóðin kaus.
Og það er mergurinn málsins.