Gamla Samfylkingin talar um skömm stjórnvalda en sú nýja segir ekki neitt

Þögn nýju Samfylkingarinnar í útlendingamálum er orðin hálf ærandi. Flokkurinn fer með himinskautum í skoðanakönnunum og Kristrún Frostadóttir er á hraðleið í forsætisráðuneytið og við þær aðstæður hefur verið tekin taktísk ákvörðun um að rugga bátnum sem allra minnst og trufla andstæðinginn (ríkisstjórnarflokkana) ekki meðan hann fer sér að voða. Þessi aðferð hefur verið kennd við sjálfan Napóleon Bónaparte og hefur virkað vel í pólitík gegnum árin.

Þetta sést alveg sérstaklega vel í útlendingamálunum og umræðum um hælisleitendur þessa dagana, en þar eru umræður mjög heitar og skoðanir mjög skiptar, eins og allir vita. Ekki síst þegar málefni Palestínufólks og neyð á Gaza bætast í pottinn. Hart er enda deilt um þau mál innan ríkisstjórnarinnar, eins og Viljinn hefur oft fjallað um, síðast í gær.

En í þessu mikla hitamáli þegir Samfylkingin, það er sú nýja. Og henni finnst alls ekki vont að ráðherrar sæti harðri gagnrýni fyrir aðgerðaleysi. Eða hefur einhver heyrt Kristrúnu Frostadóttur stíga á stokk og krefjast þess að íslenskir diplómatar drífi sig til Egyptalands að koma fólki með dvalarleyfi vegna fjölskyldusameiningar til Íslands?

En það kraumar reiði undir niðri í Samfylkingunni með þessa ærandi þögn í stóru máli. Enginn þarf að efast um að gamla Samfylkingin væri búin að gera allt vitlaust af minna tilefni. Logi Einarsson, fyrrverandi formaður, spyr um málið á þingi og vill svör og Helga Vala Helgadóttir, sem hætti óvænt sem þingmaður í fyrra og sneri sér að lögmennsku, hefur þetta um málið að segja á fésbókinni:

„Þrjár stórar konur sóttu fjölskyldu á flótta frá hryllilegu þjóðarmorði á Gaza, fjölskyldu sem hefur fengið dvalarleyfi á Íslandi. Þessar konur, Bergþóra Snæbjörnsdóttir, María Lilja Ingveldar-Þrastardóttir Kemp og Kristín Eiríksdóttir hafa hjarta, eldmóð og hugrekki til að leggja í langferð til að bjarga mannslífum.

Á sama tíma sitja íslenskir ráðherrar á mjúkum stólum sínum við skrifborðin sín, Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og formaður VG, Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra sjálfstæðisflokks, Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra sjálfstæðisflokks og Guðmundur Ingi Guðbrandsson félagsmálaráðherra VG að málið sé bara of flókið til að hægt sé að bjarga mannslífum. Það sé sko búið að senda nafnalista, en að málið sé sko samt ekki svo einfalt að það dugi bara að senda nafnalista. Það sé heldur ekkert sjálfsagt að íslensk stjórnvöld fari þá leið og að samanburðurinn við ýmis önnur lönd sé umhugsunarefni, já þau segja bara og gera allt annað en að bjarga þeim örfáu sem hér hafa fengið dvalarleyfi samkvæmt ákvörðunum íslenskra útlendingayfirvalda.

En þessar þrjár stóru konur björguðu lítilli fjölskyldu, móður og þremur börnum hennar undan því helvíti sem skapast hefur á Gaza.

Þegar við héldum að skömm íslenskra stjórnvalda gæti ekki orðið meiri þá fengum við þessar fréttir.

Ég er þakklát þessum konum og stolt af þeim. Takk.“