Gísli Marteinn Baldursson hæddist að Dorrit Moussaieff, fyrrverandi forsetafrú Íslands, í sjónvarpsþætti sínum í Ríkissjónvarpinu í gærkvöldi, er hann gerði upp fréttir liðinnar viku.
Vísaði hann þar til þess að Dorrit hefði verið undanfarna daga innan um ríkasta fólk heims á fundi World Economic Forum í Davos.
Dorrit birti mynd af sér með Ivönku Trump, dóttur forseta Bandaríkjanna á samfélagsmiðlinum Instagram og sagði í myndatexta: „Four more years“ og vísaði til þess að hún styddi Donald Trump til áframhaldandi valdasetu í Hvíta húsinu í annað kjörtímabil.
„Frábær ræða! Frábærar tölur! 4 ár í viðbót! Svo þurfa Bandaríkin á konu að halda!“ skrifaði Dorrit.
Gísli Marteinn benti á að tveimur dögum fyrr hefði Dorrit verið á ráðstefnu í Þýskalandi um hugvíkkandi efni og sagði svo:
„Við erum eiginlega að vona að áhrifanna af þeim fundi hafi ennþá gætt, þegar hún skrifaði Four more years undir myndinni af sér og Ivönku Trump.“