Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins og fv. forsætisráðherra, hefur oftlega á undanförnum árum brýnt sjálfstæðismenn til að gleyma ekki stefnu flokksins og erindi –– oftast við litlar undirtektir.
En dropinn holar steininn og með vaxandi óhamingju með ríkisstjórnina heyrast fleiri og fleiri sjálfstæðismenn segja að Sigmundur Davíð hafi rétt fyrir sér í gagnrýni sinni á mörg mál, t.d. um vandræðin við umsóknir hælisleitenda, borgarlínuna, þéttingu byggðar, staðsetningu Landspítalans, virkjanamál og umbúðastjórnmál, svo eitthvað sé nefnt.
Formaður Sjálfstæðisflokksins er sömuleiðis farinn að tjá sig í þessa veru, en það gerir verkleysi ríkisstjórnarinnar bara meira áberandi. Hún er í pólitískri öndunarvél og einungis spurning um hvenær, ekki hvort, dagar hennar verða taldir.
En viðsnúningurinn fer ekki framhjá Gísla Marteini Baldurssyni, sjónvarpsmanni og fyrrverandi borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Hann fór frá því að vera helsta vonarstjarna flokksins í að vera einn helsti hugmyndafræðingur vinstri aflanna.