Glaður en líka reiður

Styrmir Þór Bragason forstjóri Arctic Adventures/ skjáskot af Hringbraut.

Styrmir Þór Bragason, fv. bankastjóri MP banka, sagði í persónulegri og einlægri færslu á fésbókinni í gær, að tilefni væri til að fagna í ljósi óumdeildrar niðurstöðu Mannréttindadómstóls Evrópu þar sem staðfest var að Hæstiréttur Íslands hafi brotið á sér í svokölluðu Exeter máli.

„Þar var Hæstirétti með öllu óheimilt að snúa tvöföldum sýknudómi Héraðsdóms Reykjavíkur gagnvart mér yfir í sakfellingu. Það eru blendnar tilfinningar sem vakna á stundu sem þessari, bæði gleði en á sama tíma reiði. Gleði yfir réttlætinu en reiði yfir því að einhverjir dómarar séu svo ákafir að dæma einhvern að þeir séu tilbúnir að fórna almennum mannréttindum fólks um réttláta málsmeðferð og einnig fara á svig við sjálfsagt réttarfar,“ segir hann.

„Mig langar að tileinka þennan sigur börnunum mínum sem þurftu að upplifa ótrúlega hegðun af hálfu ýmissa aðila á meðan á þessu máli stóð. Mig langar einnig að þakka fjölskyldunni og vinum sem stóðu með mér í gegnum þennan erfiða tíma fyrir stuðninginn sem var mjög mikilvægur fyrir mig þegar manni finnst maður standa einn í baráttunni.

Í lokin langar mig að segja að með dómi Mannréttindadómstólsins í dag hef ég öðlast öll þau vopn sem ég þarf til að fá réttlætinu fullnægt og fá þennan ólöglega dóm ógildan. Ég mun að sjálfsögðu leita allra leiða til að fá réttlætinu fullnægt,“ segir Styrmir ennfremur.