Grafalvarlegt mál

Vefur Mannlífs liggur nú niðri, ekkert efni er þar að finna utan auglýsinga. Reynir Traustason ritstjóri upplýsti í gær að þegar hann kom niður á göngu á Úlfarsfell í gærkvöldi hafi bifreið hans verið stórskemmd eftir innbrot sem hann tilkynnti lögreglu.

Nú er komið í ljós að þjófarnir virðast hafa komist yfir lykla sem voru í bifreiðinni og ganga að ritstjórnarskrifstofum Mannlífs. Þar var líka brotist inn, tölvubúnaði stolið og efni eytt út af vefnum.

Í samtali við mbl.is segir Reynir þetta vera stærstu árás sem gerð hafi verið á fjölmiðil hér á landi. Það eru stór orð, en líklega er samt óhætt að taka undir þau. Lögregla verður að taka mál þetta föstum tökum.

Atburðarásin sem Reynir lýsir er svo lygileg að manni finnst hún fremur ættuð úr ódýrum spennuþætti í sjónvarpinu fremur en íslenskum veruleika.