
Þingmenn sitja jafnan ekki auðum höndum í kjördæmaviku en sumir virðast einfaldlega hafa fleiri klukkustundir í sólarhringnum en aðrir og halda kjördæmavikur flestar vikur. Í tilfelli Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur, ráðherra Sjálfstæðisflokksins er atorkusemin til fyrirmyndar og sannarlega þess virði að greina frekar.
Heimildarmaður Viljans hefur setið fjölsótta málefnafundi Áslaugar Örnu sem haldnir hafa verið reglulega undanfarna mánuði þar sem stóru málin eru rædd. Um er að ræða nokkurs konar vinnustofur sem allar hafa verið vel sóttar. Fyrirkomulagið er þannig að allir fundarmenn geta tekið þátt með því að kjósa eða forgangsraða umræðupunktum sem þeir telja mikilvægast að ræða og gott dæmi um styrk ráðherrans í þessu grasrótarstarfi var að finna sl. fimmtudagskvöld, þegar um hundrað manns komu saman til að tala tæpitungulaust.
Kallinn er annálaður áhugamaður um stjórnmál og hefur fylgst með íslenskri pólítík af fremsta bekk síðastliðin ár. Hressandi er að sjá stjórnmálamenn sem veigra sér ekki við því að spyrja erfiðu spurninganna og hlífa engum, ekki heldur sjálfum sér. Fundir undanfarinna vikna hafa fjallað um menntamál, húsnæðismál, útlendingamál, heilbrigðismál og þar fram eftir götunum en síðasti fundur snerist einfaldlega um stöðu Sjálfstæðisflokksins, sem líkt og lesendur Viljans þekkja, hefur séð bjartari daga.
Áslaug Arna spurði stuðningsfólk sitt einfaldlega hvernig Sjálfstæðisflokkurinn tæki forystu á ný?
Áslaug Arna spurði stuðningsfólk sitt einfaldlega hvernig Sjálfstæðisflokkurinn tæki forystu á ný? Ekki stóð á svörum. Grasrót Áslaugar var einnig spurð að því hvað henni þætti fráhrindandi við flokkinn. Svörin voru meðal annars þau að þingmönnum flokksins vantaði sjálfstraust og að forystan þyrfti að tengja í jörð – tala aftur fyrir grunnstefnu og gildum. Losa þyrfti flokkinn við ímynd gamla tímans þar sem helmingaskipti voru meginreglan og pólítískar fyrirgreiðslur sjálfsagt mál. Opna þyrfti flokksstarfið uppá gátt og helst selja Valhöll, höfuðstöðvar flokksins við Háaleitisbraut, til að senda þau skilaboð að flokkurinn væri ekki fastur í fornöld.
Kallinum er til efs að nokkur annar stjórnmálamaður trekki að viðlíka fjölda fund eftir fund, þar sem raunverulegt málefnastarf fer fram og fólk getur haft áhrif. Fjölbreyttur hópur fólks úr ólíkum áttum sækir fundi Áslaugar Örnu sem haldnir eru hér og þar íí borginni, þeirra á meðal fólks sem aldrei sést á hefðbundnu starfi í Valhöll af einhverjum ástæðum, en er áberandi í þjóðfélaginu og sannarlega borgaralega sinnað.
Greinileg stemning kringum Áslaugu Örnu
Það er greinilega stemning í kringum Áslaugu Örnu sem hefur komið sér upp duglegu baklandi, sem er ekki lítils virði í pólitík nútímans, þar sem illa gengur að fá fólk til stjórnmálastarfa eða sækja pólitíska fundi. Regluleg pistlaskrif og fundir með grasrót eru ómissandi hluti starfs stjórnmálamannsins, en athygli vekur að hún er líka áberandi á samfélagsmiðlunum með úthugsuð og meitluð skilaboð. Hluti af herkænsku ráðherrans er læsi hennar á miðlun sem kollegar hennar í stjórnmálunum mættu læra af.
Samandregið er greinilegt að Áslaug Arna ætlar sér stóra hluti í framtíðinni og er gott til þess að vita að ekki séu allir í Sjálfstæðisflokknum of litlir í sér til að hafa sjálfstraust og bera út sjálfstæðisstefnuna. Þarna er á ferðinni stjórnmálamaður sem tekur starf sitt og gengi flokksins í könnunum alvarlega. Forysta flokksins mætti ef til vill taka sér það til fyrirmyndar. Ekki sýnist af veita.
