„Enn ein skoðanakönnun kom í gær, þar sem Sjálfstæðisflokkurinn mælist með rúmlega 19 prósent fylgi. Undanfarna mánuði hefur Flokkurinn mælst með fylgi frá 17% og upp í 20%. Svo virðist sem forustu flokksins telji þetta ekki mikið tiltökumál. Alla vega er ekki reynt að bregðast við og efna til umræðu meðal flokksmanna um hvað þurfi að gera, eins og jafnan var gert á árum áður þegar fylgi flokksins var þó um helmingi meira.“
Þetta skrifar Jón Magnússon, hæstaréttarlögmaður og fv. þingmaður Sjálfstæðisflokksins, á vefsíðu sína í tilefni nýs Þjóðarpúls Gallup, sem sýnir fylgi Sjálfstæðisflokksins dala enn milli mánaða og mælist nú 19,8%.
Jón segir að Sjálfstæðisflokkurinn hafi beðið álitshnekki í Hruninu og ekki unnið úr því sem skyldi. Þá hefur flokkurinn rembst við að vera í ríkisstjórn, án þess að koma stefnumálum sínum í framkvæmd.
„Almennir flokksmenn vita ekki lengur hvað Sjálfstæðisflokkurinn stendur fyrir í raun. Ýmsir hafa talað um að gjá sé á milli þingflokks og almennra flokksmanna. Vel má svo vera, en það sem meira máli skiptir er að engin trúir lengur á að ríkisstjórnin hafi einhverjar lausnir eða býst við einhverju af henni. Grasrót Flokksins veit ekki hvaðan á sig stendur veðrið. Heildarskattheimta hefur aukist, ríkisbáknið þennst út. Ár eftir ár er ríkissjóður rekinn með halla. Ríkisstarfsmönnum fjölgar sem aldrei fyrr og verulega skortir á að mótuð sé viðunandi stefna varðandi hælisleitendur,“ bætir hann við.
Jón bætir við þeirri spurningu hvort Sjálfstæðisflokkurinn hafi svo lengi farið á svig við mikilvægustu grundvallarstefnumál sín að hann geti ekki náð því aftur að verða trúverðugur boðberi eigin stefnu.
„Fólk er vonsvikið vegna aðgerðarleysis flokksins í samstarfi við lítinn sértrúarsöfnuð yst á vinstri kantinum og treystir þessu fólki ekki lengur. Skyldi miðstjórn Sjálfstæðisflokksins telja það einnar messu virði að taka þessi mál upp og gefa flokksmönnum kost á að ræða hispurslaust um vandamálin og hvað þurfi að gera?“