Gríðarleg kaupmáttaraukning sl. fimm ár

Vakin er á athygli á niðustöðum Hagstofunnar um launabreytingar á árinu 2019 á vef Samtaka atvinnulífsins.

Launavísitalan, sem gildir fyrir allt starfsfólk í landinu, hækkaði um 4,9% milli áranna 2018 og 2019 og um 4,5% innan ársins 2019, þ.e. milli desembermánaða 2018 og 2019.

„Lágmarkslaun, sem hækkuðu um 17.000 kr. á mánuði frá apríl 2019, hækkuðu um 6,6% milli áranna 2018 og 2019 og um 5,7% innan ársins 2019.

Vísitala neysluverðs hækkaði um 3,0% milli áranna 2018 og 2019 og um 2,0% innan ársins 2019.

Á grundvelli ofangreindra talna er unnt að reikna þróun kaupmáttar launa á síðasta ári. Kaupmáttur launa samkvæmt launavísitölunni jókst um 1,8% milli áranna 2018 og 2019 og um 2,4% innan ársins. Kaupmáttur lágmarkslauna jókst mun meira eða um 3,5% milli áranna 2018 og 2019 og um 3,6% innan ársins 2019,“ segir þar meðal annars.

Þessari þróun er lýst á meðfylgjandi mynd.

„Í ljósi þess að stéttarfélög opinberra starfsmanna gerðu ekki kjarasamninga á síðasta ári á grundvelli Lífskjarasamningsins var launaþróun opinberra starfsmanna mun lakari en á almennum vinnumarkaði. Sundurliðun launaþróunar milli þessara markaða á síðustu tveimur mánuðum ársins 2019 liggur ekki fyrir en ætla má að laun á almennum markaði hafi hækkað að meðaltali um rúmlega 5% á árinu 2019. Því má ætla að kaupmáttur launa á almennum markaði hafi hækkað um rúmlega 2% milli áranna og rúmlega 3% innan ársins.

Íslenskt launafólk hefur notið fádæma velgengni, hvað kjör varðar, undanfarin fimm ár. Kaupmáttur launa almennt jókst um 26% frá árslokum 2014 til ársloka 2019 og kaupmáttur lágmarkslauna um 32% á sama tímabili. Það samsvarar því að kaupmáttur launa almennt hafi vaxið að jafnaði um 5% árlega og kaupmáttur lágmarkslauna um 6% að jafnaði árlega.

Frá ársbyrjun 1990 til ársloka 2019 óx kaupmáttur launa almennt um 82% og kaupmáttur lágmarkslauna um 146%, eins og meðfylgjandi mynd sýnir. Það felur í sér að kaupmáttur launa hafi vaxið að jafnaði árlega um 2% og kaupmáttur lágmarkslauna um 3% að jafnaði árlega,“ segir jafnframt á vef samtakanna.