Guðlaugur Þór verst upplýsingaóreiðu innan úr eigin flokki

Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfisráðherra.

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsmálaráðherra, fer þá athyglisverðu leið að bera af sér sakir og leiðrétta upplýsingaóreiðu í tengslum við hælisleitendur frá Venesúela, í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag.

Undanfarna mánuði hafa margir innan Sjálfstæðisflokksins og utan hans, haldið því til haga að lykilákvarðanir Guðlaugs Þórs í utanríkisráðuneytinu fyrir nokkrum árum, hafi orðið til þess að holskefla umsókna um alþjóðlega vernd hafi borist frá Venesúela.

Nú þegar enn og aftur er hafið kapphlaup um forystu Sjálfstæðisflokksins til framtíðar, sér Guðlaugur Þór sig knúinn að bera af sér sakir og bæði benda á þessa kerfisbundnu upplýsingaóreiðu og leiðrétta hana um leið. Hann er greinilega að kortleggja þau mál sem gætu valdið honum erfiðleikum á ferðalaginu á toppinn og ætlar að tækla þau beint, eins og kennt er í stjórnunarfræðunum.

„Undanfarið hafa mér borist fyrirspurnir úr mörgum áttum um af hverju ég hafi sem utanríkisráðherra ákveðið að veita Venesúelabúum sérstaka vernd hér á landi. Í fyrstu gerði ég ráð fyrir, og taldi augljóst, að um misskilng væri að ræða enda hafði ég sem utanríkisráðherra ekkert forræði yfir þessum málum og ákvörðunum þeim tengdum. Ég taldi þessa staðreynd mála augljósa og gerði ráð fyrir að þetta væri öllum ljóst, enda heyra útlendingamál ekki undir utanríkisráðuneytið.

Áfram fékk ég fyrirspurnir. Blaðamaður Morgunblaðsins hafði áður haldið þessu fram í þætti Dagmála síðastliðið haust. Steininn tók úr þegar þáttarstjórnandi í Vikulokunum á Ríkisútvarpinu hélt þessu fram fullum fetum án mótmæla eða athugasemda frá viðmælendum í febrúar síðastliðnum. Fullyrðin kom sömuleiðis fram í vinsælum hlaðvarpsþætti og nú nýlega birtist fullyrðingin á prenti í Viðskiptablaðinu,“ segir Guðlaugur Þór í greininni.

Hann leggur áherslu á, að þessar fullyrðingar séu „kolrangar“. Aðrir ráðherrar hafi borið ábyrgð á málaflokknum.

Og umhverfisráðherrann veit sem er, að hans eigin samherjar í Sjálfstæðisflokknum hafa haldið þessu á lofti og tengt utanríkispólitík landsins á þessum tíma, þar sem bandarísk stjórnvöld vildu sýna umheiminum að sósíalistastjórnin í Venesúela væri þess eðlis að stór hluti landsmanna vildi flýja örbirgðina sem hún vildi tryggja þegnum sínum. Og að Guðlaugur Þór hafi sem utanríkisráðherra viljað leggja okkar bandamönnum lið í því áróðursstríði, án þess að gera sér grein fyrir að það kynni að þýða gríðarlega fólksflutninga alla leiðina til Íslands.

Þar til nú að Guðlaugur Þór hefur fengið nóg og vill ekki að sagan sú arna fljúgi áfram.

„Upplýsingaóreiðan eykst þar sem einn endurtekur ummæli annars. Það er ekki annað hægt en að velta vöngum yfir því hvort einfaldlega er um að ræða misskilning eða hvort ásetningur liggi að baki þeirri undarlegu og röngu söguskýringu að utanríkisráðherra beri ábyrgð á ákvörðun sjálfstæðrar stjórnsýslunefndar á málefnasviði dómsmálaráðuneytisins um aukna vernd íbúa Venesúela.“