Gunnar Smári mun hressa upp á kosningabaráttuna

„Sósíalisminn er í tísku,“ segir fjölmiðlamaðurinn Gunnar Smári Egilsson sem loks í gær upplýsti um eitt verst geymda leyndarmál seinni ára í íslenskum stjórnmálum; að hann verði á framboðslista Sósíalistaflokksins í komandi alþingiskosningum í septemberlok.

Auðvitað hefur legið fyrir lengi að Gunnar Smári væri á leið í framboð í sínum eigin flokki; skárra væri það nú. Og ekkert að því: Nú munu kjósendur fá tækifæri til að segja sína skoðun á boðskapnum og aðrir stjórnmálamenn munu eiga kost á að rökræða hugmyndafræði og pólitík við forsprakka hinnar íslensku sósíalistahreyfingar.

Gunnar Smári er ekki óumdeildur maður fremur en margir aðrir, en hann kann svo sannarlega að koma fyrir sig orði og hér skal fullyrt að fáir íslenskir stjórnmálamenn nú um stundir séu betur skrifandi. Hann er með öðrum orðum einfaldlega býsna frambærilegur frambjóðandi með öllum sínum kostum og göllum. En þar sem penni hans er beittur, getur mörgum sviðið undan og því er formleg innkoma Gunnars Smára á hið pólitíska svið líkleg til að gera hann að sameiginlegu skotmarki margra á komandi vikum og mánuðum.

Í því felast bæði tækifæri og ógnanir, svo gripið sé til stjórnunarfræðanna. Maður sem er að reyna að koma nýjum stjórnmálaflokki á kortið grípur því auðvitað fegins hendi ef umræðan fer tíðum að snúast um persónu hans og yfirlýsingar. Spyrjið bara Sigmund Davíð sem oft hefur stjórnað umræðunni í kosningabaráttunni eins og hann fari fyrir langstærsta stjórnmálaaflinu.

Svo nokkur dæmi séu tekin fer Gunnar Smári alveg óskaplega í taugarnar á Sjálfstæðisflokknum og hefur lengi gert. Píratar sjá í honum skæðan keppinaut um flöktandi fylgi ungs og róttæks fólks sem vill breyta heiminum og Samfylkingin og VG þurfa að etja kappi við Sósíalista um vinstra fylgið og svara fyrir allskonar ásakanir um margvísleg svik við málstaðinn.

Þar sem Gunnar Smári var eitt sinn forstjóri í stóru fyrirtæki og taldist fremur til útrásarfólks en íslenskrar alþýðu er viðbúið að sá kafli á litríkum ferli hans komi mjög til umræðu. Sömuleiðis er líklegt að bent verði á hrakfarir þeirra landa sem ákveðið hafa að gera sósíalismann að leiðarljósi í þjóðskipulagi sínu. Allt þetta veit hann vel og er sjálfsagt iðandi í skinninu að hefjast handa, enda hamhleypa til þeirra verka sem eiga hug hans og hjarta þá stundina.

Þess vegna er líklegt að Gunnar Smári Egilsson muni hressa mjög upp á þá kosningabaráttu sem framundan er og yfir því má gleðjast…