Hæfileikinn að gera alla óánægða

Það blæs ekki byrlega fyrir ríkisstjórninni þessa dagana og fylgi stjórnarflokkanna er lítið til að státa sig af. Flest í vanda stjórnarinnar er heimatilbúið og ákvörðun Bjarkeyjar Olsen Gunnarsdóttur matvælaráðherra í dag um að veiða Hval hf. aðeins tímabundið veiðileyfi til veiða á langreyðum fyrir árið 2024, er prýðilegt dæmi um það, enda virðist niðurstaðan sú að allir eru óánægðir og enginn sérstaklega glaður.

Það er pólitískt afrek að standa þannig að málum aftur og aftur.

Það virðist hafa tekið matvælaráðherrann marga mánuði að átta sig á þeirri skyldu sinni að heimila beri hvalveiðar, alveg óháð persónulegum skoðunum hans eða annarra vinstri grænna ráðherra. Um er að ræða atvinnufrelsi sem varið er af stjórnarskrá, atvinnugrein sem hefur verið stunduð við Íslandsmið um áratugaskeið og hefur aftur og aftur orðið pólitískt bitbein í þeim þreytta hráskinnaleik sem stjórnarsamstarfið er fyrir löngu orðið.

Í fyrra voru veiðar blásnar af með sólarhringsfyrirvara. Allt var það svo dæmt ólöglegt og klár skaðabótaskylda ríkisins, en stjórnsýslan kann ekki að skammast sín, en heldur þess í stað áfram að vinna skemmdarverk með tafaleikjum, nú síðast með því að draga fram í miðjan júní að taka ákvörðun og hafa hana þá aðeins út þetta veiðitímabil, svo fyrirsjáanleikinn er enginn. Um leið er farið gegn ráðgjöf Hafrannsóknarstofnunar, sem nær aldrei er gert, og slíkt sagt byggja á varúðarnálgun og endurspegli „auknar áherslur stjórnvalda á sjálfbæra nýtingu auðlinda“.

Hvað þýðir það? Má þá sjávarútvegurinn líka eiga von á geðþóttaákvörðunum ráðherrans um hámarksveiði á fleiri fisktegundum, svo sem þorski, óháð mati Hafró? Á ekki að hlýta ráðum vísindamanna, þegar matvælaráðherrum VG hentar það ekki?

Að Framsókn og Sjálfstæðisflokkur séu enn og aftur tilbúin til að verja þessa vitleysu og bera á henni ábyrgð, er mikið umhugsunarefni. En víst er að fáir munu á endanum sakna þessarar ríkisstjórnar.