Glöggir áhugamenn um stjórnmál vita væntanlega að nú er starfandi svonefnd undirbúningsnefnd um rannsókn kjörbréfa á vegum Alþingis. Formaður hennar er sjálfstæðismaðurinn ódrepandi, Birgir Ármannsson lögfræðingur og formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins.
Í herbúðum þingflokka ríkisstjórnarflokkanna er sagt að Birgir stýri nefndinni af myndarskap og stígi varlega til jarðar, svo sem vonlegt er miðað við þá stöðu sem uppi er varðandi talninguna í Norðvesturkjördæmi. „Nefndin rannsakar á hraða snigilsins,“ sagði einn stjórnarþingmaður og benti á að á opnum fundi nefndarinnar í vikunni hefði aðeins komið einn gestur. Með slíku framhaldi mætti búast við að nefndin skili af sér eftir einhver ár.
En svo einfalt er það auðvitað ekki. Vitaskuld stendur líka yfir gagnaöflun og vandað skal til verka, en sami þingmaður og áður er getið, sagði einnig að viðbúið sé að Birgir og undirbúningsnefndin (að minnsta kosti meirihluti hennar, skipaður sjálfstæðismönnum, framsókn og Vinstri grænum) muni allt í einu spretta úr spori um leið og merki er gefið af hálfu leiðtoga stjórnarflokkanna um að til lands sjáist í viðræðum þeirra um myndun ríkisstjórnar til næstu fjögurra ára.
Staðreyndin sé sú, að á meðan þær viðræður standi yfir, að ekki sé talað um meðan stór ágreiningsmál eru enn óleyst, henti öllum vel að Birgir skenki varlega í bollana og boði einn og einn í einu á nefndarfundi með miklum alvöruþunga. Þegar kallið komi svo um að náðst hafi saman, sé næsta víst að skyndilega verði allir sammála um að seinni talningin gildi í Norðvestur; það sé nú ekki hægt að snúa öllu á hvolf með uppkosningu og hringekju jöfnunarmanna um land allt og það muni meirihluti nefndarinnar og loks Alþingi líka samþykkja. Á alveg undraskömmum tíma.
Þannig er nú það…