Hægt að mynda nýja ríkisstjórn á morgun til að vinda ofan af lögleysunni

„Ég verð að spyrja – og hvað svo?“ segir Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins í Norðvesturkjördæmi í grein í Morgunblaðinu þar sem hann gerir umdeilda ákvörðun Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra að umtalsefni og harða gagnrýni Óla Björns Kárasonar, þingflokksformanns Sjálfstæðisflokksins, á hana í gær. Sagði Óli Björn að þingmenn í stjórnarliðinu hefðu misst traust á ráðherranum og það væri pólitískur barnaskapur að halda að það hefði ekki áhrif á stjórnarsamstarfið sem stæði veikt eftir.

„Ætlar þingflokkur Sjálfstæðisflokksins að láta þessa vanvirðingu og lögleysu matvælaráðherrans yfir sig ganga?“ spyr Bergþór ennfremur og furðar sig á því ef Sjálfstæðisflokkurinn ætli að sitja áfram í ríkisstjórnarsamstarfi sem sé rúið trausti.

Vísar Bergþór til fundar á Akranesi á dögunum á vegum Verkalýðsfélagsins þar í bæ um hvalveiðibannið, þar sem fram hafi komið að hægt væri „á morgun“ að mynda nýja ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokki, Framsóknarflokknum og Miðflokknum „og vinda ofan af þessari lögleysu og vitleysu matvælaráðherrans.“

Bergþór var áður í Sjálfstæðisflokknum, meðal annars var hann aðstoðarmaður Sturlu Böðvarssonar samgönguráðherra. Hann hvetur sína gömlu félaga til dáða í lok greinar sinnar: „Það er mín ósk fyrir gömlu vini mína í Sjálfstæðisflokknum að þeir gangi ekki með galopin augun í gegnum sína mestu niðurlægingu seinni tíma.“