Hafa flugfreyjur nú örlög Icelandair í hendi sér?

Nú þegar Félag íslenskra atvinnuflugmanna (FÍA) hefur gengið frá nýjum fimm ára kjarasamningi við Icelandair og flugvirkjar þar áður, beinist enn frekara kastljós að stöðunni í kjaraviðræðunum við Flugfreyjufélag Íslands.

Ljóst er að bæði flugmenn og flugvirkjar hafa fallist á kröfur Icelandair um launalækkun, aukna vinnuskyldu og samning til langs tíma, eða fimm ára. Vafalaust hefur það ekki verið gert með glöðu geði, en staðan er grafalvarleg; félagið rær algjöran lífróður og flugstarfsemi um allan heim er í líknandi meðferð.

„Með þessu eru flugmenn að leggjast á árarnar með félaginu til framtíðar.“ segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group í tilkynningu til Kauphallarinnar í morgun. Jón Þór Þorvaldsson, varaþingmaður Miðflokksins og formaður FÍA, segist í sömu tilkynningu vera stoltur af því að markmið um aukna samkeppnishæfni Icelandair hafi náðst og staðfestir þannig að flugmenn og flugstjórar hafi talið sig verða að styðja félagið til áframhaldandi lífs, en horfa ekki á eftir því í gjaldþrotameðferð.

Sá möguleiki er þó enn raunhæfur meðan ósamið er við Flugfreyjufélagið fyrir hönd flugfreyja og flugþjóna. Digurbarkalegar yfirlýsingar forseta ASÍ og formanns VR hafa ekki hjálpað til eða hnútukast í fjölmiðlum almennt.

Auðvitað er öllum ljóst að staðan er þungbær. Það er ekkert grín fyrir flugfreyjur að samþykkja varanlega launalækkun og afnám allskyns fríðinda og réttinda.

En hinn möguleikinn er að samningar takist ekki og Icelandair fari í þrot. Það yrði algjört reiðarslag fyrir landið allt og félagsmenn Flugfreyjufélagsins. Engar líkur eru á að nýtt flugfélag myndi gera sambærilega eða betri samninga en þá sem nú eru í gildi.

Því er vart ofmælt að flugfreyjur hafi nú örlög Icelandair í hendi sér.