Hafnarfjörður? Hveragerði? Eldgosaváin komin til að vera hér næstu 150 til 200 ár

Ármann Höskuldsson, eldfjallafræðingur og rannsóknaprófessor við Háskóla Íslands. Mynd/Vísindavefur HÍ/Kristinn Ingvarsson

Það er skammt stórra högga í milli hjá Íslendingum þegar kemur að hamförum og náttúruvá og óhætt að segja að risastórt verkefni bíði nú stjórnvalda, að bregðast við vanda Grindvíkinga.

Greinilegt er að atburðirnir sl. sunnudag hafa breytt viðhorfi margra Grindvíkinga svo sem eðlilegt má teljast, en áhugavert er að skoða viðvörunarorð dr. Ármanns Höskuldssonar eldfjallafræðings og rannsóknarprófessors hjá Háskóla Íslands í samtali við Vísi í dag.

Ármann hefur leitt rannsóknir sem miða að því að safna upplýsingum um eldfjöll og eldgos þannig að betur megi skilja eðli einstakra eldfjalla. Ásamt samstarfsfólki við Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands hefur hann komið að vöktun eldgosa og umbrota undanfarinn aldarfjórðung. Hann ætti því að vita nokk hvað hann er að tala um þegar hann segir:

„Það eru engin lát, land rís. Við vitum alveg að það koma fleiri gos. Miðað við hvað land er að rísa hratt á milli þá mun væntanlega vera stutt á milli gosa. Það þýðir að þetta óvissuástand heldur áfram allavega þetta ár. Og ég held alveg klárlega að við verðum ekkert farin að sjá fyrir endann á þessu fyrr en eftir einhver fimm til tíu ár.“

Og svo segir Ármann:

„Erfiðasta svæðið í framtíðinni verður Hafnarfjörður. En kosturinn er sá að við erum búin að sjá hvernig þetta virkar og það þýðir að við getum farið að undirbúa og hanna og gera ráð fyrir því hvernig við bregðumst við ef eitthvað fer þar inn.“

Prófessorinn nefnir einnig til sögunnar Hengilssvæðið og Hveragerði:

„Þá er í sjálfu sér orðið stærra vandamál en er núna, því þá eru Hellisheiðavirkjun og Nesjavallavirkjun komnar í hættupakkann. Það þýðir að það færi að kólna hjá okkur á höfuðborgarsvæðinu. Við búum hér langflest og þurfum mikið heitt vatn. Vonandi er lengra í það, en við verðum klárlega að fara að hugsa til framtíðar og fara að tengja þess ógn í allt skipulag hjá okkur. Þetta er komið til að vera og verður hér næstu 150 til 200 ár.“

Svo mörg voru þau orð.