Hagað sér gagn­vart starfs­mönn­um eins og verstu at­vinnu­rek­end­ur

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar. Myndin er af vef Sósíalistaflokksins.

„Á fjöl­menn­um starfs­manna­fundi í maí 2018 til­kynnti Sól­veig Anna Jóns­dótt­ir, ný­kjör­inn formaður, að mér yrði vikið úr starfi skrif­stofu­stjóra Efl­ing­ar. Þó að þetta væri sví­v­irðileg fram­koma við mig lét ég nægja að mót­mæla þess­ari fram­komu for­manns Efl­ing­ar á fund­in­um. Þetta var stór stund í lífi manns sem hafði ætíð lagt all­an sinn metnað í starf sitt, að fá nú þessa köldu kveðju frammi fyr­ir nær öll­um vinnu­fé­lög­un­um eft­ir hálf­an fjórða ára­tug í starfi fyr­ir verka­lýðshreyf­ing­una.“

Þannig hefst löng aðsend grein Þráins Hallgrímssonar, fv. skrifstofustjóra Eflingar, í Morgunblaðinu í dag, en þar tjáir hann sig í fyrsta sinn opinberlega um samskipti sín við nýja forystu Eflingar undir forystu Sólveigar Önnu Jónsdóttur.

Þráinn er einn reynslumesti starfsmaður verkalýðshreyfingarinnar hér á landi, hefur unnið fyrir fjölda forystumanna undanfarna áratugi og sparar hann ekki stóru orðin í grein sinni þar sem hann gefur lesendum innsýn í þau átök sem hafa átt sér stað innan verkalýðshreyfingarinnar með kynslóðaskiptum og hreinsunum þar að undanförnu.

Þráinn Hallgrímsson kom úr Dagsbrún, en var skrifstofustjóri Eflingar frá stofnun félagsins.

Viljinn hefur tekið saman nokkur lykilatriði úr grein Þráins:

  • For­ystu­menn Efl­ing­ar hafa á þeim tíma sem liðinn er hagað sér gagn­vart starfs­mönn­um eins og verstu at­vinnu­rek­end­ur.
  • Þau hafa brotið öll mann­leg siðalög­mál í sam­skipt­um við starfs­menn.
  • Sól­veig Anna og Viðar Þor­steins­son hófu fer­il­inn með því að afþakka aðstoð sem fyrr­ver­andi formaður bauð þeim.
  • Hann ráðlagði þeim að halda í starfi þeim starfs­mönn­um sem réðu yfir ómet­an­legri reynslu og þekk­ingu á öllu starfi fé­lags­ins. Þau ráð voru höfð að engu.
  • Harpa Ólafs­dótt­ir, sviðsstjóri kjara­mála, sem hafði leitt kjara­samn­inga fé­lags­ins með for­ystu­mönn­um Efl­ing­ar og Flóa um langt ára­bil, bauð fram aðstoð sína. Þau losuðu sig við hana. Hún leiðir nú samn­inga Reykja­vík­ur­borg­ar.
  • Þess­ir þrír ein­stak­ling­ar sem best þekktu stjórn­un kjara­samn­inga fé­lags­ins voru nú horfn­ir af vett­vangi á ör­fá­um dög­um.
  • Þá var komið að fjár­mála­stjóra fé­lags­ins og bók­ara. Þær Kristjana Val­geirs­dótt­ir fjár­mála­stjóri og Elín Kjart­ans­dótt­ir bók­ari höfðu báðar starfað lengi við fjár­reiður og bók­hald Efl­ing­ar og Kristjana hafði áður verið gjald­keri eldri fé­laga og fylgt Dags­brún í gegn­um all­ar sam­ein­ing­ar til stofn­un­ar Efl­ing­ar.
  • Á öll­um aðal­fund­um höfðu þær fengið mikið hrós fyr­ir stjórn­un fjár­mála frá end­ur­skoðend­um fé­lags­ins enda fjár­hags­staða sjóða traust und­ir­staða rétt­inda fé­lags­manna. Til að losa sig við þessa starfs­menn var logið upp sök­um á þær báðar, þær lagðar í einelti og sýnd van­v­irðandi fram­koma sem gerði þeim ókleift að starfa á vinnustaðnum.
  • Eft­ir að hafa reynt að þrauka vik­um sam­an í óá­sætt­an­legu and­rúms­lofti fóru þær báðar að ráðlegg­ing­um lækna sinna sem töldu að þetta ástand á skrif­stofu Efl­ing­ar væri ógn við heilsu þeirra og líf. Síðan þá hafa þær báðar glímt við van­heilsu og þurft að leita lækn­is- og sál­fræðiaðstoðar.
  • Það er al­kunna að öll­um bylt­ing­um fylg­ir ógn­ar­stjórn meðan nýir vald­haf­ar eru að ná tök­um á stöðunni. Hin „nýja stétt“ yf­ir­manna á Efl­ingu tamdi sér þann stjórn­un­ar­stíl að þeir sem and­mæltu þeim eða reyndu að leiðbeina þeim féllu þegar í stað í ónáð.
  • Annaðhvort var að hlýða yf­ir­mönn­um í einu og öllu eða taka pok­ann sinn. Þetta var þeim mun al­var­legra vegna þess að starfs­menn sem urðu fyr­ir þess­ari fram­komu höfðu langa reynslu og víðtæka þekk­ingu af starfi fyr­ir fé­lagið.
  • Síðasti brottrekst­ur á Efl­ingu var með þeim hætti að starfs­manni var sagt upp störf­um fyr­ir­vara­laust. Hon­um var gert að mæta sam­stund­is hjá fram­kvæmda­stjóra þar sem fyr­ir var „full­trúi starfs­manna“ sem fram­kvæmda­stjóri hafði sjálf­ur valið til setu á fund­in­um. Ástæða upp­sagn­ar var sögð skipu­lags­breyt­ing­ar. Fljót­lega kom í ljós að það var fyr­ir­slátt­ur enda ráðnir þrír nýir starfs­menn um svipað leyti og eng­in af verk­efn­um viðkom­andi starfs­manns voru lögð niður. Kunn­ug­legt bragð stjórn­enda fyr­ir­tækja, ekki satt!
  • Áminn­ing­ar­fer­ill var ekki virt­ur í sam­ræmi við ákvæði kjara­samn­ings. Í næsta her­bergi beið einn lög­manna ASÍ. Þegar starfsmaður­inn neitaði að skrifa und­ir mót­töku upp­sagn­ar­bréfs tók lögmaður ASÍ að sér að reyna að sann­færa starfs­mann­inn um að þessi fram­koma fram­kvæmda­stjór­ans væri í lagi. Eng­inn varði hags­muni starfs­manns­ins á fund­in­um. Eng­inn var henni til aðstoðar. Lauk þessu þannig að starfs­mann­in­um var fylgt úr húsi fyr­ir fram­an aðra starfs­menn og tek­inn af henni lyk­ill og bíla­kort. Starfs­mann­in­um var síðan meinað að mæta á fyrr­ver­andi vinnustað sinn á skrif­stofu­tíma til að sækja per­sónu­lega muni sína.
  • Ég veit að það er erfitt fyr­ir les­end­ur að trúa þessu en svona eru vinnu­brögð for­ystu Efl­ing­ar sem hef­ur það að meg­in­hlut­verki að verja launa­menn, rétt­indi þeirra og stöðu. Þannig hafa þau hagað sér.