„Á fjölmennum starfsmannafundi í maí 2018 tilkynnti Sólveig Anna Jónsdóttir, nýkjörinn formaður, að mér yrði vikið úr starfi skrifstofustjóra Eflingar. Þó að þetta væri svívirðileg framkoma við mig lét ég nægja að mótmæla þessari framkomu formanns Eflingar á fundinum. Þetta var stór stund í lífi manns sem hafði ætíð lagt allan sinn metnað í starf sitt, að fá nú þessa köldu kveðju frammi fyrir nær öllum vinnufélögunum eftir hálfan fjórða áratug í starfi fyrir verkalýðshreyfinguna.“
Þannig hefst löng aðsend grein Þráins Hallgrímssonar, fv. skrifstofustjóra Eflingar, í Morgunblaðinu í dag, en þar tjáir hann sig í fyrsta sinn opinberlega um samskipti sín við nýja forystu Eflingar undir forystu Sólveigar Önnu Jónsdóttur.
Þráinn er einn reynslumesti starfsmaður verkalýðshreyfingarinnar hér á landi, hefur unnið fyrir fjölda forystumanna undanfarna áratugi og sparar hann ekki stóru orðin í grein sinni þar sem hann gefur lesendum innsýn í þau átök sem hafa átt sér stað innan verkalýðshreyfingarinnar með kynslóðaskiptum og hreinsunum þar að undanförnu.
Viljinn hefur tekið saman nokkur lykilatriði úr grein Þráins:
- Forystumenn Eflingar hafa á þeim tíma sem liðinn er hagað sér gagnvart starfsmönnum eins og verstu atvinnurekendur.
- Þau hafa brotið öll mannleg siðalögmál í samskiptum við starfsmenn.
- Sólveig Anna og Viðar Þorsteinsson hófu ferilinn með því að afþakka aðstoð sem fyrrverandi formaður bauð þeim.
- Hann ráðlagði þeim að halda í starfi þeim starfsmönnum sem réðu yfir ómetanlegri reynslu og þekkingu á öllu starfi félagsins. Þau ráð voru höfð að engu.
- Harpa Ólafsdóttir, sviðsstjóri kjaramála, sem hafði leitt kjarasamninga félagsins með forystumönnum Eflingar og Flóa um langt árabil, bauð fram aðstoð sína. Þau losuðu sig við hana. Hún leiðir nú samninga Reykjavíkurborgar.
- Þessir þrír einstaklingar sem best þekktu stjórnun kjarasamninga félagsins voru nú horfnir af vettvangi á örfáum dögum.
- Þá var komið að fjármálastjóra félagsins og bókara. Þær Kristjana Valgeirsdóttir fjármálastjóri og Elín Kjartansdóttir bókari höfðu báðar starfað lengi við fjárreiður og bókhald Eflingar og Kristjana hafði áður verið gjaldkeri eldri félaga og fylgt Dagsbrún í gegnum allar sameiningar til stofnunar Eflingar.
- Á öllum aðalfundum höfðu þær fengið mikið hrós fyrir stjórnun fjármála frá endurskoðendum félagsins enda fjárhagsstaða sjóða traust undirstaða réttinda félagsmanna. Til að losa sig við þessa starfsmenn var logið upp sökum á þær báðar, þær lagðar í einelti og sýnd vanvirðandi framkoma sem gerði þeim ókleift að starfa á vinnustaðnum.
- Eftir að hafa reynt að þrauka vikum saman í óásættanlegu andrúmslofti fóru þær báðar að ráðleggingum lækna sinna sem töldu að þetta ástand á skrifstofu Eflingar væri ógn við heilsu þeirra og líf. Síðan þá hafa þær báðar glímt við vanheilsu og þurft að leita læknis- og sálfræðiaðstoðar.
- Það er alkunna að öllum byltingum fylgir ógnarstjórn meðan nýir valdhafar eru að ná tökum á stöðunni. Hin „nýja stétt“ yfirmanna á Eflingu tamdi sér þann stjórnunarstíl að þeir sem andmæltu þeim eða reyndu að leiðbeina þeim féllu þegar í stað í ónáð.
- Annaðhvort var að hlýða yfirmönnum í einu og öllu eða taka pokann sinn. Þetta var þeim mun alvarlegra vegna þess að starfsmenn sem urðu fyrir þessari framkomu höfðu langa reynslu og víðtæka þekkingu af starfi fyrir félagið.
- Síðasti brottrekstur á Eflingu var með þeim hætti að starfsmanni var sagt upp störfum fyrirvaralaust. Honum var gert að mæta samstundis hjá framkvæmdastjóra þar sem fyrir var „fulltrúi starfsmanna“ sem framkvæmdastjóri hafði sjálfur valið til setu á fundinum. Ástæða uppsagnar var sögð skipulagsbreytingar. Fljótlega kom í ljós að það var fyrirsláttur enda ráðnir þrír nýir starfsmenn um svipað leyti og engin af verkefnum viðkomandi starfsmanns voru lögð niður. Kunnuglegt bragð stjórnenda fyrirtækja, ekki satt!
- Áminningarferill var ekki virtur í samræmi við ákvæði kjarasamnings. Í næsta herbergi beið einn lögmanna ASÍ. Þegar starfsmaðurinn neitaði að skrifa undir móttöku uppsagnarbréfs tók lögmaður ASÍ að sér að reyna að sannfæra starfsmanninn um að þessi framkoma framkvæmdastjórans væri í lagi. Enginn varði hagsmuni starfsmannsins á fundinum. Enginn var henni til aðstoðar. Lauk þessu þannig að starfsmanninum var fylgt úr húsi fyrir framan aðra starfsmenn og tekinn af henni lykill og bílakort. Starfsmanninum var síðan meinað að mæta á fyrrverandi vinnustað sinn á skrifstofutíma til að sækja persónulega muni sína.
- Ég veit að það er erfitt fyrir lesendur að trúa þessu en svona eru vinnubrögð forystu Eflingar sem hefur það að meginhlutverki að verja launamenn, réttindi þeirra og stöðu. Þannig hafa þau hagað sér.